Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 28. ágúst 2022 19:06
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Annar sigur ÍA í röð - Markalaust á Meistaravöllum
Oliver Stefánsson gerði sigurmark ÍA undir lokin
Oliver Stefánsson gerði sigurmark ÍA undir lokin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Atli SIgurjónsson átti besta færi KR í fyrri hálfleik gegn FH
Atli SIgurjónsson átti besta færi KR í fyrri hálfleik gegn FH
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Steven Lennon var nálægt því að stela sigrinum fyrir FH undir lokin
Steven Lennon var nálægt því að stela sigrinum fyrir FH undir lokin
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA vann annan leik sinn í röð er liðið lagði Keflavík að velli, 1-0, á HS Orkuvellinum í Keflavík í Bestu deild karla í kvöld en á sama tíma gerðu KR og FH markalaust jafntefli í Vesturbæ.

Skagamenn unnu ÍBV, 2-1, í síðustu umferð og var það fyrsti sigur liðsins síðan í byrjun móts. Gott gengi liðsins hélt áfram í kvöld en það var Keflavík sem var meira í því að ógna marki framan af.

Dagur Ingi Valsson átti skot í stöng. Joey Gibbs sendi Dag í gegn en skotið í stöng og náðu Skagamenn að hreinsa. Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu en þó lítið um hættuleg færi.

Keflvíkingar héldu áfram að sækja á Skagamenn og var liðið hársbreidd frá því að komast yfir þegar þrettán mínútur voru eftir af leiknum. Nacho Heras fékk boltann í teignum og reyndi skot sem var á leið í netið en þá mætti Tobias Stagaard og bjargaði á ótrúlegan hátt.

Skagamenn fengu nokkrar hornspyrnur undir lok leiks og heppnaðist það vel. Oliver Stefánsson var einn á fjærstönginni eftir að boltinn hafði verið skallaður fyrir markið og kom hann boltanum í netið.

Stórt mark hjá ÍA sem vinnur annan leik sinn í röð og er nú með 14 stig í næst neðsta sæti deildarinnar. Keflavík á meðan með 22 stig í 8. sæti.

Markalaust í Vesturbæ

KR og FH gerðu markalaust jafntefli í fremur daufum leik á Meistaravöllum.

Heimamenn voru hættulegri aðilinn og áttu besta færi fyrri hálfleiksins er Sigurður Bjartur Hallsson kom boltanum fyrir á Atla Sigurjónsson sem tæklaði boltann rétt yfir markið.

KR var líklegra til að skora í síðari hálfleiknum og skapaði sér nokkur ákjósanleg færi en boltinn vildi ekki inn. FH reyndi að stela sigrinum undir lokin.

FH-ingar fengu aukaspyrnu sem fór í vegginn og svo mætti Steven Lennon og lét vaða á markið en Beitir Ólafsson varði frábærlega í markinu.

Lokatölur 0-0 á Meistaravöllum. KR í 6. sæti með 26 stig en FH í 10. sæti með 15 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Keflavík 0 - 1 ÍA
0-1 Oliver Stefánsson ('89 )
Lestu um leikinn

KR 0 - 0 FH
Lestu um leikinn
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner