Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 29. febrúar 2020 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Comolli „sér eftir öllu" í Suarez-Evra málinu
Evra og Suarez.
Evra og Suarez.
Mynd: Getty Images
Damien Comolli starfaði sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool frá 2010 til 2012.
Damien Comolli starfaði sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool frá 2010 til 2012.
Mynd: Getty Images
Damien Comolli, sem starfaði sem yfirmaður knattspyrnumála hjá Liverpool frá 2010 til 2012, settist niður með David Ornstein á The Athletic í vikunni og tóku þeir upp góðan hlaðvarpsþátt.

Þar fóru þeir mikið yfir tíma Comolli hjá Liverpool þar sem hann fékk inn leikmenn eins og Luis Suarez, Andy Carroll, Jordan Henderson, Charlie Adam, Stewart Downing og fleiri. Einhverjir sem náðu meiri árangri en aðrir í hópi þeirra leikmanna sem hann fékk til félagsins.

Ein af bestu kaupum Comolli voru að fá inn Suarez frá Ajax. Suarez var og er frábær fótboltamaður, en hann hefur líka gert sig sekan um slæm mistök á sínum ferli. Í október 2011 var hann dæmdur í átta leikja bann eftir að hann var dæmdur sekur um kynþáttafordóma í garð Patrice Evra, leikmanns Manchester United.

Áður en bannið tók gildi klæddust leikmenn Liverpool bolum í upphitun fyrir leik gegn Wigan árið 2011, bolir sem voru til stuðnings Suarez.

Jamie Carragher, sem var leikmaður Liverpool á þessum tíma, bað Evra afsökunar á þessu fyrr á þessari leiktíð þegar þeir voru saman í útsendingu á Sky Sports.

Comolli ræddi þetta í hlaðvarpinu og segist hann sjá eftir öllu sem gerðist. „Ég sé nánast eftir öllu," sagði hann.

„Ég sé eftir viðhorfi okkar, ég sé eftir því hvernig við tókum á málinu, ég sé eftir viðbrögðum mínum við dómstól enska knattspyrnusambandsins. Ég brást ekki vel við dómnum því ég var ekki sammála honum á þeim tíma."

„Þetta var líklega versta augnablik mitt á ferlinum. Við einangruðum okkur frá umheiminum og það var líklega ekki rétt að gera það. Við hefðum átt að þiggja utanaðkomandi ráð, lagalega séð og ekki síður frá almannatengslum."

„Við brugðumst við á versta mögulega hátt því þetta var Manchester Unted og rígurinn er svo mikill. Við hugsuðum ekki um Luis eins og við áttum að gera. Við gáfum honum ekki vörnina eða þau ráð sem hann átti að fá."

„Vanalega sé ég leikmenn sem börnin mín. Þetta var í fyrsta sinn sem mér fannst eins og ég hefði brugðist leikmanni. Við brugðumst félaginu og við brugðumst fótbolta almennt því við brugðumst ekki við á réttan hátt. Eina afsökunin sem mér dettur í hug, ef það er einhver afsökun, þá er það þannig að enginn okkar hafði lent í þessu áður og við vissum ekki hvað við áttum að gera."

„Þú hefðir átt að sjá hvernig eigendurnir brugðust við. Þeir vildu styðja Luis og voru jafnmikið tilfinningalega flæktir í málið og við. Þetta var allt rangt," segir Comolli.

Sjá einnig:
Evra fékk bréf: Gott og heiðarlegt fólk sem vinnur fyrir félagið

Athugasemdir
banner