Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 30. september 2021 23:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Söguleg stund fyrir Þrótt á morgun: Pressan er meiri á Blikum
Álfhildur Rósa
Álfhildur Rósa
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íris Dögg í markinu
Íris Dögg í markinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fagnað í undanúrsitunum.
Fagnað í undanúrsitunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á morgun fer fram bikarúrslitaleikur Breiðabliks og Þróttar á Laugardalsvelli. Sigurvegari leiksins verður Mjólkurbikarmeistari árið 2021.

Leikurinn hefst klukkan 19:15 og er hægt að kaupa sér miða á leikinn á tix.is. Álfhildur Rósa Kjartansdóttir, fyrirliði Þróttar, ræddi við Fótbolta.net í dag um stórleikinn á morgun.

Álfhildur sagði fréttaritara frá því að hún væri á leið í viðtal á Bylgjunni og hefði fyrr í dag verið á FM957. „Þetta er eitthvað sem ég er ekki vön. Mér finnst samt mjög jákvætt að það er mikil athygli á þessum leik," sagði Álfhildur.

„Mér líst ótrúlega vel á leikinn, við erum að spila á móti toppliði. Við lentum í 3. sæti og þær í 2. sæti í deildinni, þetta verður mjög spennandi leikur á morgun. Við í hópnum erum mjög spenntar."

Vonast eftir áhorfendameti
Breiðablik vann stóran sigur gegn Þrótti í deildinni í lok tímabilsins. Getur Þróttur nýtt það sem einhverja hvatningu? „Já, auðvitað hvetur þetta okkur áfram, við viljum sýna betri frammistöðu á morgun. Við munum mæta grimmar til leiks og ég á von á því að þetta verði allt öðruvísi leikur. Þetta er bikarinn, það er allt önnur keppni en deildin"

Hvernig líst þér á að spila á Laugardalsvelli? „Það er bara geggjað, toppaðstaða og stór stúka sem á að fylla. Því fleiri Köttarar sem mæta því betra. Þeir eru búnir að vera duglegir að safna liði á leikinn og ég held að við náum örugglega að toppa áhorfendametið á bikarúrslitaleik."

Þróttur er í fyrsta sinnn í bikarúrslitum. „Þetta er sögulegt fyrir okkur í Þrótti og það væri klárlega eitthvað til að muna eftir ef áhorfendametið yrði slegið. Þetta er stærsti leikur sem margir Þróttarar hafa fengið að upplifa."

Reynsluboltar miðla sinni reynslu
Er erfitt að halda sér á jörðinni fyrir svona stóran leik? „Já, það er svolítið erfitt. Blikastelpur eru vanari því að fara í stóra leiki. Við erum flestar að spila svona stóran leik í fyrsta skiptið. Það er svolítið stress og smá óvissa um hvað við séum að fara út í."

Þróttur er með ungt lið en markvörður liðsins, Íris Dögg Gunnarsdóttir, er mikill reynslubolti. „Hún er búin að miðla sinni þekkingu, hefur verið lengi í þessu. Þær Simma og Hildur geta líka aðeins hjálpað okkur yngri í kringum þennan leik."

Sáttar við árangurinn í deildinni
Hafandi endað í þriðja sæti á öðru tímabili í efstu deild, var það ásættanleg niðurstaða? „Já, við vorum nokkuð sáttar. Það var enn von undir lokin að ná 2. sætinu sem er Evrópusæti. Við erum alltaf að bæta okkur og getum ekki kvartað neitt yfir því að ná þriðja sætinu, það var algjör draumur."

Gætu komið á óvart
Teluru að þið munið koma á óvart með ykkar uppleggi á morgun eða er þetta það sama og þið gerðuð undir lok tímabilsins?

„Ég held að við munum koma á óvart. Ég held að þessi leikur verði öðruvísi en sá síðasti. Við ætlum að reyna spila okkar bolta sem gekk vel í sumar. Það er svolítið gott að koma inn í leikinn vitandi að pressan er meiri á Blikum, það er pressa á þeim að skila inn titli þetta árið. Við komum inn sem smá 'underdogs' og getum komið aðeins á óvart."

Eru allar í hópnum klárar í slaginn? „Það er kannski smá hnjask hér og þar en alls ekki neitt alvarlegt og það eru allar í hópnum klárar í þetta."

Það er svolítið síðan að deildin kláraðist. Hvernig hefur undirbúningurinn verið?

„Það var geggjað að fá svona góðan tíma til að æfa vel fyrir þennan leik. Við fengum tvær vikur sem er frábært. Það voru nokkrar sem fóru út og spiluðu með U19, eftir að þær komu til baka og þá hefur undirbúningurinn gengið ótrúlega vel," sagði Álfhildur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner