Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
banner
   mán 30. desember 2019 17:06
Elvar Geir Magnússon
Nota VAR rangt á Englandi - Á bara að vera í augljósum mistökum
VARsjáin er mikið í umræðunni.
VARsjáin er mikið í umræðunni.
Mynd: Getty Images
Lukas Brud, framkvæmdastjóri reglugerðarnefndarinnar í alþjóðlegum fótbolta (Ifab), segir að VAR myndbandsdómgæslan sé notuð með röngum hætti í ensku úrvalsdeildinni.

Hann segir skýrt í reglum að VAR eigi aðeins að nota til að leiðrétta „augljós mistök í dómgæslu".

Um helgina komu nokkur atvik upp í ensku úrvalsdeildinni þar sem rangstöðu-atvik voru skoðuð ítarlega. Mörk voru dæmd af Wolves, Crystal Palace, Norwich, Brighton og Sheffield United þar sem leikmenn voru taldir rangstæðir með ótrúlega litlum mun.

Brud segir að Ifab muni gefa út leiðbeiningar sem muni innihalda upplýsingar varðandi notkun á VAR þegar meta á rangstöður.

„Reglurnar eru þær að aðeins eigi að leiðrétta augljós mistök. Það á ekki að eyða miklum tíma í að reyna að finna eitthvað út sem er brot úr millimetra," segir Brud.

„Ef eitthvað er ekki ljóst við fyrstu sýn þá eru það ekki augljós mistök. Að horfa á eitt sjónarhorn er eitt en VAR var ekki hugsað til að skoða fimmtán sjónarhorn til að reyna að finna eitthvað sem er jafnvel ekki til staðar."
Athugasemdir
banner
banner