Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 05. nóvember 2018 12:10
Elvar Geir Magnússon
Gústi Gylfa: Leyfum Kaj Leo að hugsa sín mál
Færeyski landsliðsmaðurinn Kaj Leo í Bartalsstovu.
Færeyski landsliðsmaðurinn Kaj Leo í Bartalsstovu.
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks.
Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Planið var að skoða markaðinn og sjá hvort það væri hægt að finna 2-3 leikmenn sem myndu styrkja okkur í réttum stöðum. Við hefjum æfingar á fimmtudaginn og þá tek ég stöðuna á hópnum, meðal annars skoða hvernig leikmennirnir sem voru lánaðir frá okkur í sumar koma inn í þetta. Þeir fá möguleika á að sýna sig," segir Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks.

Fótbolti.net heyrði í Ágústi til að taka púlsinn á leikmannamálum Kópavogsliðsins.

„Við höfum styrkt okkur fram á við með því að fá Þóri Guðjónsson. Við erum með stóran og öflugan hóp en svo er verið að skoða einhverja leikmenn frá okkur varðandi atvinnumennsku. Það eru að koma fyrirspurnir varðandi tvo til þrjá leikmenn. Það er bara nóvember og við þurfum ekkert að stressa okkur, við eigum marga góða unga leikmenn og erum í góðum málum."

Kaj Leo vill bíða aðeins
Samningur færeyska sóknarleikmannsins Kaj Leo í Bartalsstovu við ÍBV er runninn út. Breiðablik er meðal félaga sem hafa sýnt honum áhuga en sagan segir að hann vilji taka sér tíma og sjá hvort sér standi möguleikar í Skandinavíu opnir.

„Það eru ýmsir sem hafa verið orðaðir við okkur og það eru frábærir leikmenn. Við höfum verið í sambandi við ýmsa en það er ekkert í hendi," segir Ágúst.

„Það hafa verið einhverjar hreyfingar varðandi Kaj Leo en hann vill bíða þar til eftir landsleikjatörnina og það er einn gluggi eftir þar. Við leyfum honum að hugsa sín mál. Við fengum þau svör að hann vilji bíða aðeins og við virðum það."

Þórir getur skorað fullt af mörkum
Oliver Sigurjónsson kom á láni til Breiðabliks í sumar en er kominn aftur til Bodö/Glimt í Noregi.

„Hann er úti hjá sínu félagi. Hann átti frábært tímabil með okkur í sumar og vonandi hefur hann styrkt sína stöðu hjá félaginu sínu. Svo verðum við bara að taka púlsinn, það yrði auðvitað draumur fyrir mig og fyrir Blika að hafa hann í liðinu," segir Ágúst.

Breiðablik hafnaði í öðru sæti bæði í Pepsi-deildinni og bikarnum á liðnu tímabili. Félagið hefur fengið til sín einn leikmann frá því að tímabilinu lauk. Hvernig mun Þórir Guðjónsson, sóknarmaðurinn sem kom frá Fjölni, nýtast Breiðabliki?

„Þórir gefur okkur mikið. Ég þekki hann mjög vel og hef unnið með honum lengi. Hann getur skorað fullt af mörkum. Ég vænti mikils af Tóta og hann er fyrst og fremst hugsaður sem 'nía'. Hann er að koma í erfiða samkeppni þar sem Thomas Mikkelsen stóð sig hrikalega vel. En það er bikar og Evrópukeppni framundan og gott að hafa stóran hóp. Tóti mun nýtast okkur mjög vel, ég er alveg klár að því," segir Ágúst Gylfason að lokum.

Sjá einnig:
Þórir Guðjóns: Vonandi fer maður að skora aftur almennilega
Athugasemdir
banner
banner
banner