Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 14. nóvember 2021 22:15
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þórdís að spila frábærlega - Guðný lék í sigri AC Milan
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðný Árnadóttir.
Guðný Árnadóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslendingaliðin í úrvalsdeild kvenna á Kýpur fóru heldur betur hamförum í dag.

Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir skoraði tvennu fyrir Apollon Limassol í 1-9 sigri gegn AMOK Chrysomilia á útivelli. Um síðustu helgi skoraði Þórdís þrennu og lagði upp eitt. Hún er að spila frábærlega um þessar mundir.

Apollon er í þriðja sæti deildarinnar og með tveimur stigum meira er annað Íslendingafélag, Omonia Nicosia. Með þeim spila Birgitta Hallgrímsdóttir og Þorbjörg Jóna Garðarsdóttir.

Þær komu báðar inn á sem varamenn í 0-10 sigri gegn Apollon Lympion í dag.

Það skal taka fram að Apollon á leik til góða á Omonia; Apollon Limassol hefur spilað fimm leiki og Omonia sex leiki.

Guðný lék í sigri AC Milan
Guðný Árnadóttir, sem hefur fest sæti sitt sem hægri bakvörður íslenska landsliðsins, spilaði allan leikinn hægra megin í þriggja manna vörn ítalska stórliðsins AC Milan gegn Pomigliano í ítölsku úrvalsdeildinni.

Milan skoraði tvisvar snemma leiks og dugði það til sigurs. Lokatölur 0-2 fyrir Milan, sem er í þriðja sæti.

Í C-deild karla á Ítalíu spilaði Emil Hallfreðsson allan leikinn fyrir Virtus Verona í jafntefli gegn FeralpiSalo. Virtus Verona er í 17. sæti í sínum riðli.

Anna Björk Kristjánsdóttir var ekki í leikmannahópi Inter gegn Hellas Verona. Leikurinn endaði með 5-0 sigri Inter, sem er fimmta sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar.

Dagný kom inn á í svekkjandi jafntefli
Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður á 72. mínútu þegar lið hennar, West Ham, gerði jafntefli við Reading í ensku úrvalsdeildinni.

West Ham komst í 2-0 en kastaði frá sér sigrinum. Reading jafnaði metin í uppbótartíma.

West Ham hefur farið ágætlega af stað á tímabilinu og situr í sjöunda sæti með níu stig.

María kom ekki við sögu þegar Celtic fór í úrslit
María Catharina Gros Ólafsdóttir kom ekki við sögu er Celtic vann 2-1 sigur gegn Hibernian í undanúrslitum skoska bikarsins. Celtic spilar við Glasgow í úrslitaleiknum.

Ingunn Haraldsdóttir var ekki með PAOK í 6-0 sigri gegn Giannina í grísku úrvalsdeildinni. PAOK er með fullt hús stiga á toppi deildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner