Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
banner
   sun 28. júlí 2019 23:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fimm sem höfnuðu Liverpool - Gylfi einn þeirra
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Henrikh Mkhitaryan.
Henrikh Mkhitaryan.
Mynd: Getty Images
Willian.
Willian.
Mynd: Getty Images
Alexis Sanchez.
Alexis Sanchez.
Mynd: Getty Images
Í dag er Liverpool heillandi áfangastaður fyrir bestu leikmenn í heimi. Liðið spilar mjög skemmtilegan fótbolta undir stjórn eins besta knattspyrnustjóra í heimi. Á síðustu leiktíð vann liðið Meistaradeild Evrópu á síðasta tímabili ásamt því að vera nálægt því að vinna Englandsmeistaratitilinn.

Fyrir nokkrum árum síðan var kannski ekki eins heillandi að fara til Liverpool.

Fox Sports ákvað að taka saman lista yfir fimm leikmenn sem höfnuðu Liverpool á sínum tíma. Þessir leikmenn spila allir í dag með öðrum félögum í ensku úrvalsdeildinni. Á þessum fimm manna lista má finna einn Íslending og ættu allir að geta giskað á hver það er.

5. Christian Pulisic
Pulisic samdi við Dortmund þegar Jurgen Klopp var enn stjóri þar. Þegar Klopp tók við Liverpool vildi hann bæta við kantmönnum og gerði 11 milljón punda tilboð í Pulisic sumarið 2016. Tilboðinu var hins vegar hafnað.

Í mars 2017 í viðtali við FourFourTwo talaði Pulisic um áhugann frá Liverpool. „Ég virði Klopp og kann vel við hann en ég hugsaði aldrei um að fara til Liverpool. Borussia Dortmund hefur gefið mér allt. Ef ég legg mikið á mig þá mun ég spila og elska þetta félag."

Í stað Pulisic þá keypti Liverpool Sadio Mane, Mohamed Salah og Xherdan Shaqiri. Pulisic færði sig um set í sumar og gekk í raðir Chelsea.

4. Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi starfaði undir stjórn Brendan Rodgers hjá bæði Reading og Swansea. Hann var á láni hjá Swansea frá Hoffenheim og var þar algjörlega frábær. Swansea reyndi að kaupa hann en það gekk ekki eftir þegar Rodgers yfirgaf Swansea til að taka við Liverpool.

Það leit á tímabili út fyrir það að Gylfi yrði fyrsti leikmaðurinn sem Rodgers fengi til Liverpool, en Íslendingurinn valdi að lokum að ganga í raðir Tottenham.

Gylfi átti eftir að spila aftur fyrir Swansea þar sem hann var aftur frábær fyrir liðið. Hann varð dýrasti leikmaður í sögu Everton, met sem síðan þá hefur verið slegið, sumarið 2017. Liverpool og Everton eru nágrannar og erkifjendur.

3. Henrikh Mkhitaryan
Armeninn sem lék þá með Shakhtar Donetsk í Úkraínu var efstur á óskalista Liverpool sumarið 2013. Hann skoraði 29 mörk í 42 leikjum fyrir Shakhtar sem miðjumaður og var Liverpool tilbúið að eyða meira en 25 milljónum evra í hann.

Dortmund skarst í leikinn og voru fljótir að krækja í Mkhitaryan sem arftaka Mario Götze, sem þá hafði farið til Bayern München. Samkvæmt Mkhitaryan þá valdi hann Dortmund fram yfir Liverpool út af Jurgen Klopp!

Mkhitaryan fór í ensku úrvalsdeildina 2016 og samdi við Manchester United. Þar náði hann sér ekki almennilega strik og fór til Arsenal í janúar 2018 sem hluti af skiptidíl fyrir Alexis Sanchez. Hann hefur ekki náð sömu hæðum í ensku úrvalsdeildinni og hann náði með Shakhtar og Dortmund.

2. Willian
Eftir að Mkhitaryan fór til Dortmund skoðaði Liverpool auðvitað aðra leikmenn. Á svipuðum tíma voru allir leikmenn Anzhi Makhachkala í Rússlandi til sölu vegna fjárhagslegra örðugleika. Willian var einn af leikmönnunum og vakti hann áhuga Liverpool.

Tottenham hafði líka áhuga á brasilíska kantmanninum þar sem Gareth Bale hafði farið til Real Madrid

Willian vildi fara til Spurs vegna þess að félagið var í London og gat boðið upp á fótbolta í Evrópukeppni, ólíkt Liverpool á þessum tíma. Hann flaug til London í læknisskoðun, en þá stal Chelsea honum af Tottenham. Hann hefur síðan þá leikið með Chelsea.

1. Alexis Sanchez
Sumarið 2014 seldi Liverpool Luis Suarez til Barcelona og stóra spurningin var hver ætti að leysa hann af hólmi. Barcelona var tilbúið að sleppa Sanchez til þess að búa til pláss fyrir Suarez.

Liverpool hafði áhuga á Sanchez, en aftur var það félag frá Lundúnum sem hafði betur í baráttunni. Í þetta skiptið var það Arsenal.

Sílemaðurinn valdi Arsenal og var ein af ástæðunum staðsetning; London. Liverpool missti Suarez, eyddi peningnum afar illa sem varð til þess að Brendan Rodgers var rekinn og Jurgen Klopp ráðinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner