Þór/KA vann 2-1 sigur á Þrótti á Akureyri í dag. Fótbolti.net ræddi við Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfara Þórs/KA eftir leikinn.
Lestu um leikinn: Þór/KA 2 - 1 Þróttur R.
„Við byrjum mjög illa og þær voru algjörlega með okkur í tíu mínútur. Það sem ég er ánægður með er hvernig liðið vann sig inn í leikinn. Það er það sem við erum alltaf að stefna að, ná leikstjórn inn á vellinum, að stelpurnar leysi vandamál sem koma upp og að þurfa ekki að koma aftur að hliðarlínunni," sagði Jóhann Kristinn.
Sandra María Jessen skoraði bæði mörk liðsins og hefur því skorað sjö mörk í fyrstu þremur leikjunum.
„Það er ákveðin stöðugleiki í markaskorun hjá Söndru, hvort þetta haldi svona áfram, ég veit það ekki. Það er gott að þetta sé hún því hún hefur breitt bak til að standast pressu, komandi inn í fjórða leikinn hafandi skorað sjö mörk nú þegar. Hún setur alla pressu á sig sjálf og finnur ekkert mikið fyrir þessu. Þetta er galin tölfræði, ég veit það," sagði Jóhann.
Þór/KA heimsækir Víking í næstu umferð sem steinlá gegn Val í kvöld.
„Mér sýnist þær koma ansi særðar til leiks miðað við úrslit þeirra í dag. Við þurfum að undirbúa okkur vel, ég veit það að John (Andrews) vinur minn eigi eftir að kokka upp einhverja baneitraða naglasúpu áður en við komum í Víkina þannig við þurfum að vera á tánum," sagði Jóhann.