Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 17. júlí 2022 18:01
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Skoraði þrennu í hádramatískum sigri á Val
Halldór Jón SIgurður Þórðarson skoraði þrennu í fyrsta sigri Eyjamanna
Halldór Jón SIgurður Þórðarson skoraði þrennu í fyrsta sigri Eyjamanna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Jóhannsson kom inná sem varamaður og skoraði tvö en það dugði ekki til í dag
Aron Jóhannsson kom inná sem varamaður og skoraði tvö en það dugði ekki til í dag
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frederik Schram varði víti undir lok leiksins
Frederik Schram varði víti undir lok leiksins
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
ÍBV 3 - 2 Valur
1-0 Halldór Jón Sigurður Þórðarson ('30 )
2-0 Halldór Jón Sigurður Þórðarson ('61 )
2-1 Aron Jóhannsson ('75 )
2-2 Aron Jóhannsson ('78 )
2-2 Felix Örn Friðriksson ('89 , misnotað víti)
3-2 Halldór Jón Sigurður Þórðarson ('90 )
Lestu um leikinn

ÍBV vann fyrsta sigur sinn í Bestu deildinni í dag er liðið bar sigurorð af Val, 3-2, á Hásteinsvelli. Lokamínútur leiksins voru hádramatískar þar sem Frederik Schram varði víti frá Eyjamönnum áður en Halldór Jón Sigurður Þórðarson fullkomnaði þrennu sína.

Valsmenn áttu fyrsta hættulega færið á 9. mínútu. Sigurður Egill Lárusson lét sendingu Jesper Juelsgård áður en Arnór Smárason lét vaða en boltinn fór af varnarmönnum Eyjamanna áður en honum var hreinsað frá.

Gestirnir fengu nokkrar hornspyrnur í röð en Guðjón Orri Sigurjónsson var öflugur í rammanum og kýldi flestar þeirra frá eða handsamaði knöttinn.

Það dró til tíðinda á 30. mínútu. Alex Freyr Hilmarsson stal boltanum af Hólmari Erni Eyjólfssyni, kom boltanum fyrir á Halldór Jón Sigurð Þórðarson sem skoraði framhjá Frederik Schram í markinu.

Eyjamenn reyndu hvað þeir gátu að bæta við öðru fyrir lok fyrri hálfleiks en sættu sig við að vera 1-0 yfir þegar flautað var til loka hálfleiksins.

Valur vildi fá víti í upphafi síðari hálfleiks er boltinn virtist fara af hendinni á Felix Erni Friðrikssyni en dómari leiksins sá ekkert athugavert við það.

Halldór Jón bætti við öðru marki á 61. mínútu. Eiður Aron Sigurbjörnsson fékk boltann í teignum eftir innkast, fann Halldór Jón í teignums sem gerði annað mark sitt í leiknum. Högg fyrir Val, sem neitaði hins vegar að gefast upp.

Aron Jóhannsson hafði komið inná sem varamaður stuttu áður og átti hann heldur betur eftir að setja mark sitt á leikinn. Aron minnkaði muninn á 75. mínútu eftir fyrirgjöf Birkis Heimissonar og þremur mínútum síðar jafnaði hann metin og að þessu sinni eftir fyrirgjöf Sigurðs Egils Lárussonar.

Undir lok leiks fengu Eyjamenn kjörið tækifæri til að ná í fyrsta sigur tímabilsins. Hólmar Örn braut á Arnari Breka Gunnarssyni í teignum. Felix Örn fór á punktinn en Frederik Schram var löngu mættur í vinstra hornið og varði vítið örugglega. Sem betur fer fyrir Felix reyndist þetta ekki svo dýrkeypt.

Nokkrum mínútum síðar fullkomnaði Halldór Jón þrennu sína og aftur var það Alex Freyr sem þræddi hann í gegn. Frederik varði fyrsta skot Halldórs en hann fylgdi vel á eftir.

Lokatölur á Hásteinsvelli 3-2 fyrir Eyjamenn sem hafa lengið beðið eftir þessum sigri. ÍBV fer upp úr botnsætinu og í 11. sæti með 8 stig á meðan Valur er í 5. sætinu með 20 stig og hefur ekki unnið í síðustu þremur leikjum sínum.
Athugasemdir
banner