Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   lau 29. maí 2021 17:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ísland að missa af Amöndu?
Amanda í leik með U17 landsliði kvenna.
Amanda í leik með U17 landsliði kvenna.
Mynd: Getty Images
Hin 17 ára gamla Amanda Andradóttir hefur verið valin í U19 landsliðshóp hjá Noregi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Amanda er valin í norskan landsliðshóp.

Um er að ræða gríðarlega efnilegan miðjumann sem er uppalin hjá Víkingi og Val hér á landi. Hún fór ung að árum til Danmerkur þar sem hún var á mála hjá Fortuna Hjörring og Nordsjælland. Á síðasta ári gekk hún svo í raðir norska meistaraliðsins Vålerenga.

Hún hefur byrjað fyrstu tvo leiki Vålerenga í norsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og í dag lagði hún upp í 4-0 sigri á Lyn.

Ísland gæti verið að missa af þessum efnilega leikmanni sem sagðist í viðtali við Fótbolta.net vera mikið tengd báðum löndum. Hún á íslenskan föður og norska móður.

„Amanda Andradóttir er 17 ára búin að byrja báða deildarleikina Noregsmeisturum Vålerenga á tímabilinu, en er ekki valin í komandi verkefni A-Landsliðs Íslands eða æfingahóp U-19 ára landsliðsins. Norðmenn fljótir að pikka það upp og hafa valið hana í U19 hópinn sinn," skrifar Orri Rafn Sigurðarson, lýsandi á Viaplay í Danmörku, á Twitter en hann er vel tengdur í málefni Amöndu. Hann segir að Norðmenn hafi lagt mikið upp úr því að fá hana og líti á hana sem lykilmann í framtíðinni.

Hún getur valið að spila fyrir báðar þjóðir þangað til hún spilar keppnisleik með A-landsliði annað hvort Íslands eða Noregs. Eftir það getur hún ekki skipt á milli.

Amanda er dóttir Andra Sigþórssonar og frænka Kolbeins Sigþórssonar. Amanda hefur spilað fyrir yngri landslið Íslands - eins og áður segir - en það er mjög athyglisvert að hún sé farin að spila fyrir sterkasta lið Noregs svona ung.


Athugasemdir
banner
banner