Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
banner
   mán 27. október 2014 15:30
Elvar Geir Magnússon
Ögmundur: Yrðu gríðarleg vonbrigði að vera ekki valinn
Ögmundur Kristinsson.
Ögmundur Kristinsson.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Ögmundur á heimavelli Randers.
Ögmundur á heimavelli Randers.
Mynd: Heimasíða Randers
Ögmundur Kristinsson markvörður segir að það væru gríðarleg vonbrigði ef hann verður ekki valinn í íslenska landsliðshópinn fyrir komandi leiki gegn Belgíu og Tékklandi.

„Ég geri engar kröfur um að vera valinn. Þegar maður er að spila í sterkustu deildinni af íslenskum markvörðum þá væri maður til í að vera í landsliðinu. Það er ekki mitt að ákveða og ég treysti Lars og Heimi til að velja," segir Ögmundur.

Hannes Þór Halldórsson er aðalmarkvörður Íslands en Ingvar Jónsson og Gunnleifur Gunnleifsson hafa verið valdir sem varamarkverðir í fyrstu leikjunum í undankeppni EM.

„Það yrðu gríðarleg vonbrigði ef ég verð ekki valinn. Það hafa verið vonbrigði hingað til að hafa ekki verið valinn en þau yrðu enn meiri ef ég verð ekki valinn næst."

Mitt tækifæri að sýna mig
Ögmundur var á bekknum hjá danska úrvalsdeildarliðinu Randers í upphafi tímabils eftir að hafa komið til liðsins frá Fram í sumar. Hann hefur hinsvegar spilað síðustu tvo leiki eftir a- hinn markvörðurinn meiddist og haldið búrinu hreinu.

Í gær vann Randers 3-0 sigur gegn OB en liðið hefur verið að gera góða hluti og er sem stendur í öðru sæti.

„Maður beið bara eftir því að fá tækifæri og maður hefur nýtt það ágætlega. Ég er sáttur við mitt hingað til. Það var lítið að gera í leiknum í gær en þeir leikir eru oft erfiðastir. Liðið fékk þrjú stig og ég hélt hreinu svo þetta var mjög gott," segir Ögmundur.

„Ég geri mitt besta og vona að þjálfarinn treysti mér til að spila sem flesta leiki. Það er bikarleikur framundan á miðvikudag sem ég reikna með að spila. Það hefur gengið vel hjá liðinu og þjálfarinn sagði mér um leið og ég kom að við markverðirnir værum í góðri samkeppni. Hinn markvörðurinn kom á undan en nú er bara mitt tækifæri að sýna mig. Það gekk vel á Parken og aftur í gær."

Elmar mikils metinn
„Allar aðstæður hérna eru mun betri en ég bjóst við í rauninni. Umgjörðin er frábær hérna og það er hugsað um allt fyrir mann. Gæðin á æfingum eru nokkrum klössum betri og maður verður bara betri á því að vera hérna."

Theodór Elmar Bjarnason leikur einnig með Randers en hann skoraði fyrsta markið í gær. Ögmundur segir að Elmar sé mikils metinn hjá félaginu.

„Hann er búinn að vera hérna í nokkurn tíma og hefur staðið sig vel fyrir klúbbinn. Hann er mikils metinn bæði hjá stuðningsmönnum og þjálfurum liðsins, enda er hann toppeintak," segir Ögmundur Kristinsson.
Athugasemdir
banner