Man Utd og Arsenal vilja Guehi - Osimhen gæti farið til Chelsea eða PSG - Geertruida gæti fylgt Slot til Liverpool
   þri 24. janúar 2017 20:00
Magnús Már Einarsson
Viðtal
Alfreð gengur vel í Katar - Gæti snúið aftur í febrúar
Alfreð Finnbogason.
Alfreð Finnbogason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alfreð í leik með Augsburg.
Alfreð í leik með Augsburg.
Mynd: Getty Images
„Þetta hefur gengð mjög vel," sagði Alfreð Finnbogason, framherji Augsburg og íslenska landsliðsins við Fótbolta.net í kvöld en hann hefur undanfarnar þrjár vikur verið í meðhöndlun og sérstökum æfingum hjá sérfræðingum í Katar.

Hinn 27 ára gamli Alfreð hefur ekkert spilað síðan í sigurleik Íslands gegn Tyrklandi þann 9. október síðastliðinn. Alfreð hefur verið að glíma við bólgur í lífbeini sem leiða niður í nárann. Engin svör fundust við meiðslunum fyrstu vikurnar en nú lítur staðan betur út.

„Það hafa verið miklar framfarir síðustu 10 daga. Þær mestu í þessu ferli öllu. Maður hefur verið á mörgum stöðum og prófa ýmislegt. Þetta eru mjög flókin meiðslin en þeir eru að fylgja plani hérna sem þeir bjuggu til sérstaklega fyrir nárameiðsli."

Alfreð verður í viku til viðbótar í Katar en ekki er ennþá hægt að festa nákvæma tímasetningu á það hvenær hann snýr aftur inn á fótboltavöllinn.

„Ég fer aftur til Þýskalands eftir viku. Þá kemur í ljós hvernig standið er. Ég er byrjaður að hlaupa og gera æfingar svo það eru góðar horfur á lofti. Ég vil ekki segja ákveðna dagsetningu en vonandi get ég farið að gera eitthvað inni á vellinum þegar ég fer til baka núna í lok janúar."

„Ég hef aldrei farið í gegnum svona meiðsli áður og það gæti komið bakslag í þetta þannig að ég vil ekki vera með yfirlýsingar. Ég ætla að ná mér 100% af þessu og líða vel á vellinum. Ég ætla að taka þann tíma sem þarf," sagði Alfreð sem gerir sér vonir um að geta spilað með Augsburg í næsta mánuði.

„Ég vona að ég geti það í febrúar. Hvort það verði raunhæft, verður að koma í ljós. Ég tek þetta skref fyrir skref og horfi á viku einu."

Alfreð skoraði í öllum fyrstu þremur leikjum Íslands í undankeppni HM. Alfreð var ekki með gegn Króatíu í nóvember en hann vonast til að vera kominn á fulla ferð fyrir útileikinn gegn Kosovo í mars.

„Það er eitthvað sem maður er með bakvið eyrað. Fyrst ætla ég að ná mér og spila fyrir mitt lið. Það eina sem ég er að spá í núna er að byrja að spila fótbolta aftur en ég vonast eftir að verða klár þá," sagði Alfreð að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner