Félög í Sádi-Arabíu vilja Casemiro og Bruno - Real vill fá Trent frá Liverpool - Alonso ætlar að stýra Liverpool, Real og Bayern
   sun 28. apríl 2024 18:08
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Danijel skoraði tvö er Víkingur vann fjórða leikinn í röð
Danijel Dejan Djuric skoraði tvö og var grátlega nálægt þrennunni
Danijel Dejan Djuric skoraði tvö og var grátlega nálægt þrennunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KA-menn eru með eitt stig eftir fjóra leiki
KA-menn eru með eitt stig eftir fjóra leiki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. 4 - 2 KA
0-1 Sveinn Margeir Hauksson ('7 )
1-1 Danijel Dejan Djuric ('20 , víti)
2-1 Nikolaj Andreas Hansen ('36 )
3-1 Aron Elís Þrándarson ('45 )
4-1 Danijel Dejan Djuric ('63 )
4-2 Elfar Árni Aðalsteinsson ('76 )
Lestu um leikinn

Íslands- og bikarmeistararar Víkings eru áfram með fullt hús stiga í Bestu deild karla en liðið vann góðan 4-2 sigur á KA á Víkingsvellinum í kvöld.

KA-menn hafa byrjað tímabilið illa og voru aðeins með eitt stig úr fyrstu þremur leikjunum. Gestirnir byrjuðu vel í kvöld en Sveinn Margeir Hauksson skoraði fyrsta markið á 7. mínútu.

Ásgeir Sigurgeirsson kom með langan bolta á Svein, sem lét vaða við vítateigslínuna eftir kapphlaup við Halldór Smára Sigurðsson.

Víkingar tóku yfir leikinn eftir markið. Nikolaj Hansen fiskaði vítaspyrnu á 18. mínútu og jafnaði Danijel Dejan Djuric metin úr spyrnunni. Leikmenn KA voru ósáttir við dómgæsluna og töldu Hansen hafa krækt sér í ódýrt víti. Ingimar Torbjörnsson Stöle fékk meðal annars að líta gula spjaldið fyrir tuð.

Þegar um hálftími var liðinn kom Ingvar Jónsson, markvörður Víkinga, sér í smá klandur. Harley Willard tók skotið og reyndi Ingvar að grípa boltann, en var nálægt því að missa hann í eigið net.

Sex mínútum síðar komust heimamenn yfir. Hansen stangaði hornspyrnu Pablo Punyed í netið og undir lok hálfleiksins bætti Aron Elís Þrándarson við forystuna með auðveldu marki eftir undirbúning Ara Sigurpálssonar.

Þetta mark undir lok hálfleiksins var þungt högg fyrir KA sem hafði annars verið að spila ágætis bolta í leiknum.

Danijel Djuric gerði annað mark sitt þegar hálftími var eftir með þrumuskoti af löngu færi eftir sendingu frá Erlingi Agnarssyni.

KA-menn náðu aðeins að setja pressu á Víkinga næstu mínútur. Elfar Árni Aðalsteinsson átti skalla í stöng áður en Hans Viktor Guðmundsson mætti í frákastið en setti boltann yfir af stuttu færi.

Elfar fékk annað skallafæri sjö mínútum síðar eftir fyrirgjöf Ívars Arnar Árnason og í þetta sinn stangaði hann boltanum í netið og gaf KA-mönnum örlitla von á að komast aftur inn í leikinn.


Fimm mínútum fyrir leikslok var Danijel nálægt því að fullkomna þrennuna en Steinþór Már Auðunsson varði skot hans aftur fyrir endamörk.

Lokatölur 4-2 Víkingum í vil sem eru með fjóra sigra af fjórum mögulegum. Góð byrjun á titilvörninni en KA er með aðeins eitt stig.
Athugasemdir
banner
banner