West Ham blandar sér í baráttu um Soule - City hefur áhuga á Donnarumma - PSG vill leikmenn Man Utd
   mán 29. apríl 2024 10:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sterkust í 2. umferð - Sjaldan verið auðveldara
Sandra María Jessen (Þór/KA)
Sandra María Jessen.
Sandra María Jessen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sandra María er gríðarlega mikilvæg fyrir Þór/KA.
Sandra María er gríðarlega mikilvæg fyrir Þór/KA.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það hefur sjaldan ef aldrei verið eins auðvelt að velja sterkasta leikmann umferðarinnar í Bestu deild kvenna. Sandra María Jessen skoraði öll fjögur mörk Þórs/KA gegn FH og er að sjálfsögðu sterkasti leikmaður 2. umferðar í Bestu deild kvenna.

„Hún skorar fjögur mörk í 4-0 sigri. Þarf ég að segja meira?" skrifaði Þorsteinn Haukur Harðarson einfaldlega í skýrslu sinni frá leiknum en Sandra María fór þarna afar illa með FH.

Það var gríðarlegur happafengur fyrir Þór/KA að Sandra María endursamdi við félagið fyrir tímabilið. Það var mikill áhugi á henni en hún valdi að semja aftur við uppeldisfélagið. Hún ræddi aðeins um þá ákvörðun í Niðurtalningunni hér á Fótbolta.net fyrir tímabilið.

„Ég held að þetta hafi verið rétt ákvörðun fyrir mig. Mér líður rosalega vel fyrir norðan og ég hef trú á því sem er að gerast þar. Það er rosalega góður efniviður. Mér finnst Þór/KA hafa hjálpað mér rosalega mikið að koma til baka eftir að ég átti Ellu, dóttur mína, og ég hef trú á því að ég geti haldið áfram að bæta fyrir norðan. Það er ástæða fyrir því að maður er þarna, ég tel mig geta orðið betri leikmaður þarna og ég er ekki hætt að vilja bæta mig," sagði Sandra María sem er alltaf í landsliðshópi Íslands.

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA, var skiljanlega mjög ánægður þegar Sandra setti undirskrift sína á blað.

„Það eru ekki margir leikmenn sem gera tilkall í að vera betri en hún í þessari deild. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli út frá gæðum og hæfileikum, en hún færir líka liðinu og hópnum mjög mikið. Það er mjög mikið sem flestir sjá ekki. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur sem lið að þetta hafi gengið upp. Við erum gríðarlega ánægð," sagði Jóhann Kristinn.

Hér fyrir neðan má sjá mörkin sem Sandra María gerði í leiknum gegn FH á laugardag.

Sjá einnig:
Sterkasta lið 2. umferðar - Fjórar sem eru aftur


Jóhann Kristinn: Ómetanlegt að hafa markaskorara eins og Söndru
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner