Ronaldo vill fá Casemiro til Sádi-Arabíu - Man Utd gæti gert lánstilboð í Kolo Muani - Dortmund hefur áhuga á Rashford
   sun 28. apríl 2024 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Við vonandi náum að taka aðeins við keflinu af körfuboltanum"
Brynjar Björn Gunnarsson - Grindavík
Lengjudeildin
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari Grindavíkur.
Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það hefur mikið gengið á í bæjarfélaginu í vetur.
Það hefur mikið gengið á í bæjarfélaginu í vetur.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Brynjar tók við Grindavík á síðasta sumri.
Brynjar tók við Grindavík á síðasta sumri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grindavík er spáð fimmta sæti.
Grindavík er spáð fimmta sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Grindavík og Fram á dögunum.
Úr leik Grindavík og Fram á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Tímabilið leggst ágætlega í okkur Grindvíkinga," segir Brynjar Björn Gunnarsson, þjálfari Grindavíkur, í samtali við Fótbolta.net fyrir tímabilið sem er framundan. Auðvitað er búið að vera óvissuástand í allan vetur meira og minna með æfingastaði, hvar við myndum spila og svo frameftir götunum. Við erum komnir með heimavöll í Safamýri núna og erum að koma okkur þar fyrir almennilega."

„Spáin kemur kannski smá á óvart miðað við ástandið og hversu miklar breytingar eru á leikmannahópnum, en ég held að þetta sé nokkuð sanngjörn spá miðað við gengið í fyrra og hvernig veturinn hefur verið," segir Brynjar jafnframt.

Grindavík er spáð fimmta sæti Lengjudeildarinnar í sumar.

„Lengjubikarinn var fínn en aðrir æfingaleikir voru okkur erfiðir. Við spiluðum reyndar við Val og Stjörnuna, og svona sterk lið á kafla sem voru erfið viðureignar. Ég held að þessi spá sé nokkuð sanngjörn bara."

Kom inn á miðju síðasta sumri
Grindavík ætlaði sér stóra hluti síðasta sumar en það gekk ekki eftir. Brynjar kom inn í félagið eftir að þjálfaraskipti voru á miðju síðasta tímabili.

„Ég kom inn þegar það voru sex leikir eftir og við náðum að gera nóg til að sogast ekki alveg inn í fallbaráttuna," segir Brynjar.

„Við byrjuðum ágætlega eftir að ég kem og eigum einhverja möguleika upp í fimmta sætið, en síðan töpum við einum eða tveimur leikjum og erum enn að berjast við að tryggja okkur frá falli. Við gerðum það 100 prósent fyrir síðasta leikinn sem var mjög þægilegt. Markmiðið var að halda okkur frá fallsætunum og einbeita okkur svo að vetrinum og þessu tímabili sem er að byrja."

Hefur verið mikið verkefni
Eins og allir vita þá hefur gengið mikið á í Grindavík frá því síðasta tímabili lauk. Þessar ömurlegu jarðhræringar hafa sett líf Grindvíkinga á hliðina og íþróttastarf í bænum hefur flækst verulega.

„Að halda utan um hópinn í vetur hefur verið mikið verkefni," segir Brynjar. „Það hefur verið erfitt á köflum. En við náðum í ágætis æfingarútínu með hjálp Stjörnumanna. Við vorum aðeins í Miðgarði, aðeins niðri á Stjörnuvelli og á Álftanesi. Við nýttum þessa tíma eins vel og við gátum. Við áttum engan æfingastað á laugardögum og reyndum helst að spila æfingaleiki þar eða gera eitthvað annað."

„Heilt yfir - miðað við allt - er þetta búið að ganga nokkuð vel."

Miklar breytingar á leikmannahópnum
Grindavík mætir með mikið breytt lið til leiks í sumar og verður athyglisvert að fylgjast með því.

„Breytingar á leikmannahópnum hafa verið miklar. Það eru tíu eða ellefu sem fara frá okkur, en við erum búnir að fá inn um níu eða tíu nýja leikmenn. Það eru miklar breytingar og sumir af þessum leikmönnum voru að koma á síðustu tveimur eða þremur vikum."

„Við náðum að búa til að ágætis kjarna í lok febrúar og byrjun mars. Við vorum með góðan æfingahóp og gátum haldið úti góðum æfingum. Eins og ég sagði áttum við ágætis Lengjubikar og svo förum við í æfingaferð til Spánar fyrstu vikuna í mars og áttum góða tíu daga þar."

„Miðað við hvað hefði getað verið, þá er þetta búið að vera mjög gott. Við höfum fengið frábæran stuðning frá stjórn og öllum þeim sem koma að liðinu til að halda öllu gangandi í eins venjulegum horfum og mögulega hægt er," segir Brynjar.

Fyrsta markmið að ná topp fimm
Brynjar býst við að Lengjudeildin verði gríðarlega sterk í ár og samkeppnin verði mikil.

„Mér sýnist deildin vera jöfn. Það er ekki hægt að taka neinn út úr neinu. Þetta verður bara jöfn deild og ég get ekki séð að neinn stingi af endilega. Mér sýnist liðin vera jöfn. Liðin sem voru í efri hlutanum í fyrra verða örugglega áfram á svipuðu róli. Ég held að 1. deildin hafi líklega aldrei verið eins góð eða eins spennandi. Við vonumst bara eftir því," segir Brynjar.

„Okkar markmið í sumar er að lenda í topp fimm og komast í umspilið. Það er fyrsta markmið, að berjast um það. Markmiðið er líka að vera með samkeppnishæft lið, bjóða upp á hjarta og baráttu. Sýna leikgleði fyrir fólkið okkar sem mætir á völlinn að styðja okkur. Við vonandi náum að taka aðeins við keflinu af körfuboltanum og að fólkið okkar fái reglulega að fagna í sumar."

Eitthvað að lokum?

„Ég hlakka til tímabilsins og vonast eftir skemmtilegu móti, góðum fótbolta og góðri mætingu á völlinn. Ég vona að leikmenn og félögin fái verðskuldaða kynningu af því að þau eru að leggja gríðarlega mikla vinnu í sín lið og á bak við tjöldin er fullt af sjálfboðaliðum sem eru að leggja gríðarlega vinnu í að halda úti þessum liðum. Við megum ekki gleyma því fólki í allri stóru myndinni."
Athugasemdir
banner