mán 29.apr 2024 14:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|
Spá þjálfara í 2. deild: 9. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 2. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla þjálfara liðanna í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Völsungi er spáð níunda sætinu fyrir komandi tímabil.
Pálmi Rafn Pálmason í leik með Völsungi í fyrra. Hann spilar væntanlega ekki með liðinu í sumar.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1.
2.
3.
4.
5.
6.
7.
8.
9. Völsungur, 37 stig
10. Reynir S., 35 stig
11. KF, 27 stig
12. Kormákur/Hvöt, 13 stig
9. Völsungur
Í níunda sæti í spánni er Völsungur en liðið endaði einmitt þar í fyrra, átta stigum frá fallsvæðinu. Völsungur hefur verið í 2. deild alveg samfleytt frá 2016 en liðið var næst því að fara upp fyrir fjórum árum. Þá voru þeir bara einu stigi frá því. Það er ekki búist við því að þeir verði í baráttunni um að fara upp í ár, en það getur svo sem allt gerst í þessu. Þeir gerðu miklar breytingar fyrir síðasta tímabil og þeir geta eflaust tekið góðan lærdóm frá síðasta sumri. Það eru margir heimamenn í liðinu í bland við nokkra erlenda leikmenn og verður spennandi að sjá hvort Húsvíkingar nái að taka skref fram á við frá síðasta tímabili.
Þjálfarinn: Aðalsteinn Jóhann Friðriksson er á leið inn í sitt annað tímabil sem aðalþjálfari Völsungs. Aðalsteinn hefur stýrt kvennaliðinu síðustu árin og þjálfar karlaliðið einnig núna. Aðalsteinn spilaði lengi með Völsungi og er með stórt hjarta fyrir félaginu.
Santiago Feuillassier Abalo verður honum til aðstoðar í sumar en hann hefur gert það gott inn á vellinum með Völsungi undanfarin ár.
Stóra spurningin: Hvaða gamla hetja snýr til baka næst?
Það hefur verið skemmtilegt að fylgjast með því síðustu tvö sumur hjá Völsungi að gamlar hetjur hafa snúið til baka á Húsavík og spilað með liðinu. Baldur Sigurðsson gerði það 2022 og Pálmi Rafn Pálmason í fyrra. Hver er eiginlega næstur? Það eru nokkrir á Akureyri sem koma til greina.
Lykilmenn:
Arnar Pálmi Kristjánsson: Er fyrirliðinn og einn reynslumesti leikmaður liðsins þrátt fyrir að vera bara fæddur árið 2002. Arnar Pálmi er öflugur leikmaður sem spilar yfirleitt alla leiki Völsungs á hverju tímabili. Er með mikið hjarta fyrir liðinu og gefur alls ekkert eftir.
Inigo Albizuri Arruti: Kom til Völsungs í vetur en hann þekkir vel til í íslenska boltanum. Albi, eins og hann er kallaður, hefur spilað með Leikni Fáskrúðsfirði og KFA síðustu þrjú árin. Albi er þrítugur miðvörður sem mun styrkja varnarleik Völsungs mikið fyrir sumarið.
Steinþór Freyr Þorsteinsson: Stálmúsin gekk í raðir Völsungs í vetur og mun koma inn með hellings reynslu og mikil gæði. Steinþór Freyr, sem er 38 ára gamall, kom til félagsins frá KA. Steinþór er fyrrum landsliðsmaður, lék á sínum tíma átta A-landsleiki og um árabil sem atvinnumaður erlendis. Hann fór erlendis sumarið 2010 og sneri aftur til Íslands fyrir tímabilið 2017.
Komnir:
Arnar Páll Matthíasson frá Ægi
Inigo Albizuri Arruti frá KFA
Ólafur Örn Ásgeirsson frá HK (á láni)
Rafnar Máni Gunnarsson frá Þór
Simon Dominguez Colina frá Noregi
Steinþór Freyr Þorsteinsson frá KA
Xabier Cardenas Anorga frá Spáni
Farnir:
Björgvin Máni Bjarnason í Dalvík/Reyni (var á láni frá KA)
Hákon Atli Aðalsteinsson í KA (var á láni)
Indriði Ketilsson í KA
Santiago Feuillassier hættur og orðinn aðstoðarþjálfari
Sigurður Hrannar Þorsteinsson í Ægi (var á láni frá ÍA)
Stefán Óli Hallgrímsson í Víking Ó.
Þjálfarinn segir - Aðalsteinn Jóhann Friðriksson
„Það er alltaf gaman þegar spár fara að birtast á .net það þýðir að það styttist mikið í mót með tilheyrandi spennu og tilhlökkun. Spá er samt bara alltaf spá og keppast lið ýmist við að sanna eða afsanna þær. Vonandi afsönnum við þessa spá og endum ofar í töflunni. En við enduðum í 9. sæti í fyrra svo það er ekki óeðlilegt að okkur sé spáð þar aftur núna."
„Markmiðin eru alltaf að ungir leikmenn verði betri og taki stærra hlutverk í liðinu á hverju ári. En á sama tíma ætlum við einfaldlega að skora fleiri mörk en á síðasta tímabili, fá á okkur færri mörk, þar að leiðandi endum við með fleiri stig og ofar í töflunni."
Fyrstu þrír leikir Völsungs:
4. maí, Víkingur Ó. - Völsungur (Ólafsvíkurvöllur)
11. maí, Völsungur - Selfoss (PCC völlurinn Húsavík)
18. maí, Reynir S. - Völsungur (Brons völlurinn)
Athugasemdir