Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   fim 12. ágúst 2021 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Sævar Atli: Áður en ég vissi af, þá var ég staddur á Keflavíkurflugvelli
Sævar Atli með Frey Alexanderssyni, þjálfara Lyngby.
Sævar Atli með Frey Alexanderssyni, þjálfara Lyngby.
Mynd: Lyngby
Sævar var frábær fyrir Leikni í sumar.
Sævar var frábær fyrir Leikni í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Í leik gegn Fylki sem var síðasti leikur hans fyrir Breiðholtsfélagið - í bili alla vega.
Í leik gegn Fylki sem var síðasti leikur hans fyrir Breiðholtsfélagið - í bili alla vega.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Núna ætla ég bara að njóta þess að vera í atvinnuumhverfi, æfa með frábærum leikmönnum og þjálfurum'
'Núna ætla ég bara að njóta þess að vera í atvinnuumhverfi, æfa með frábærum leikmönnum og þjálfurum'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Sævar var valinn besti leikmaður fyrsta þriðjungs í Pepsi Max-deildinni og fékk að launum Bose heyrnartól.
Sævar var valinn besti leikmaður fyrsta þriðjungs í Pepsi Max-deildinni og fékk að launum Bose heyrnartól.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sævar Atli Magnússon gekk nýverið í raðir danska félagsins Lyngby frá uppeldisfélagi sínu, Leikni í Breiðholti.

Hann spilaði sinn fyrsta leik fyrir Lyngby um síðustu helgi, í 5-0 sigri gegn Esbjerg.

„Þetta var búið að vera eitthvað aðeins í gangi tveimur til þremur vikum áður en þetta gerðist, en síðan kom þetta skyndilega upp og þetta gerðist allt mjög hratt. Áður en ég vissi var ég staddur á Keflavíkurflugvelli á leiðinni til Danmerkur."

„Það var rosalega margt sem heillaði við Lyngby; Freyr nátturulega að þjálfa, staðsetningin þar sem Lyngby er úthverfi í Kaupmannahöfn og þeir voru í dönsku úrvalsdeildinni í fyrra þannig að ég vissi að þetta væri þvílíkt sterkt lið. Það er öflugt teymi í kringum liðið og ég vissi að ég gæti bætt leik minn hérna," segir Sævar í samtali við Fótbolta.net.

Hann segir að það hafi verið skemmtilegt að spila fyrsta leikinn um síðustu helgi.

„Það var gjörsamlega geðveikt. Það var búið að tala aðeins um að stemmingin yrði góð því það væri langt síðan að það var spilaður heimaleikur með fullan völl af áhorfendum; Stemningin var rosaleg og það var mjög skemmtilegt að fá að koma inn á svona snemma því ég bjóst ekkert endilega við því. Síðan unnum við 5-0 og spilamennskan var frábær."

„Ég var rosalega hrifinn af hvernig liðið spilaði og það er rosalega mikið af gæðamiklum leikmönnum hér sem verður gaman að æfa með. Tempóið í leiknum var líka miklu hærra en ég bjóst við og það verður gaman að aðlagast því."

Allir tekið vel á móti mér
Sævar talaði um það í fyrsta viðtali sínu við félagið að hann myndi vera fljótur að læra dönskuna. En hvernig hefur verið að koma inn í lið þar sem flestir tala annað tungumál en þú sjálfur?

„Það hefur verið mjög gott. Það hafa allir tekið vel á móti mér og það er smá fjölskyldustemming yfir félaginu. Að sjálfsögðu er erfitt að tala ekki sama tungumál en ég verð núna að vera duglegur að leggja á mig að læra tungumálið því þá verður allt svo mikið auðveldara. Ég hljóp aðeins á mig í þessu viðtali því það verður erfiðara en ég hélt að læra dönskuna," segir Sævar léttur.

Það auðveldar væntanlega að hafa íslenskan þjálfara. Freyr Alexandersson þjálfar Lyngby, en Sævar þekkir hann ágætlega úr Breiðholtinu.

„Hann er mjög reynslumikill og góður þjálfari. Hann á eftir að hjálpa mér að bæta mig þvílíkt mikið, það er alveg klárt," segir Sævar um Frey.

Magnaður fyrir Leikni í sumar
Sævar var magnaður fyrir Leikni í sumar og skoraði tíu mörk í Pepsi Max-deildinni. Bjóst hann við því að gera svona vel á tímabilinu?

„Já og nei, ég stóð mig vel á undirbúningstímabilinu og var heitur fyrir framan markið. Ég tók það með mér inn í mótið. En ég var samt búinn að undirbúa mig undir bæði; að það gæti gengið illa og mörkin myndu ekki detta, og að það myndi ganga mjög vel - þannig að hvorugt myndi koma mér á óvart."

Hann segir að það hafi verið erfið ákvörðun að kveðja Breiðholtið.

„Já klárlega. Það skiptir held ég engu máli á hvaða tímapunkti, sú ákvörðun hefði alltaf verið erfið."

Leiknir er núna í sjötta sæti Pepsi Max-deildarinnar, átta stigum frá fallsvæðinu.

Var búinn að semja við Breiðablik
Sævar, sem er 21 árs gamall, hefði alltaf yfirgefið Leikni eftir tímabilið. Hann var búinn að semja við Breiðablik um að spila í Kópavogi á næstu leiktíð, en Leiknir hafði möguleikann á því að selja hann erlendis - sem þeir svo gerðu.

„Nei, ekki svekkjandi," segir Sævar spurður að því hvort það væri svekkjandi að fá ekki að taka þátt í því verkefni sem er núna í gangi hjá Blikum.

„Ég leit á þetta þannig að þetta voru bara tveir rosalega spennandi valkostir sem ég gat valið á milli, og ég stökk á þann sem mér fannst vera meira spennandi. Breiðablik er að gera frábæra hluti og gaman að sjá hvað er í gangi þar en þetta tækifæri sem ég er að fá hjá Lyngby er það sem maður er búinn að stefna að síðan maður var lítill og þegar það kom upp þurfti ég bara að kýla á það."

Fínt markmið að spila fyrir U21
Það var talað um það í Innkastinu á dögunum að Sævar yrði kominn í landsliðið innan tveggja ára.

„Ég er nú ekki byrjaður að hugsa svo langt. Er ekki fínt markmið núna að komast í U21 hópinn í haust og spila fyrsta leikinn þar? Auðvitað hefur alltaf verið draumur að spila fyrir A-landsliðið og það er bara undir mér komið að reyna að fá það tækifæri."

„Núna ætla ég bara að njóta þess að vera í atvinnuumhverfi, æfa með frábærum leikmönnum og þjálfurum, og þó að ég sé bara búinn að vera hérna í stuttan tíma þá líst mér þvílíkt vel á allt sem er í gangi hef ég mikla trú á að félagið sé á mikilli uppleið," segir Sævar Atli, leikmaður Lyngby í Danmörku.
Athugasemdir
banner
banner
banner