Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   fös 24. apríl 2020 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
De Roon lofar að baka þúsund pítsur og halda partý ef Atalanta vinnur
De Roon hefur leikið 158 leiki fyrir Atalanta og 16 fyrir hollenska A-landsliðið.
De Roon hefur leikið 158 leiki fyrir Atalanta og 16 fyrir hollenska A-landsliðið.
Mynd: Getty Images
Hollenski miðjumaðurinn Marten de Roon hefur verið að gera góða hluti með Atalanta í ítalska boltanum.

Atalanta hefur farið framúr öllum væntingum síðustu tvö tímabil og er í fyrsta sinn í sögunni komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu eftir að hafa slegið Valencia úr leik á afar sannfærandi máta.

De Roon er orðinn þekktur á Ítalíu fyrir húmorinn sinn og lofaði hann að baka pítsur fyrir þúsund manns ef svo ólíklega vildi til að Atalanta myndi fara alla leið og standa uppi sem sigurvegari í Meistaradeildinni.

„Ég mun setja upp borð á aðaltorginu í Bergamó og bjóða eitt þúsund manns í pítsuveislu. Ég myndi baka pítsurnar sjálfur," svaraði De Roon á Instagram þegar stuðningsmaður spurði hvernig hann myndi fagna sigri Atalanta.

„Seinna um kvöldið mun ég svo halda partý þar sem öllum verður boðið."

De Roon lék fyrir Middlesbrough áður en hann var fenginn til Atalanta og var spurður um það besta og versta við að spila fyrir félagið.

„Besti parturinn voru stuðningsmennirnir og þegar ég skoraði gegn Man City. Sá versi var veðrið."

Miðjumaðurinn var svo spurður hvað hann hefði orðið í lífinu ef hann væri ekki með hæfileika sem knattspyrnumaður.

„Eins og Crouchy sagði einu sinni: 'Hreinn sveinn, líklega.' Á alvarlegri nótum þá vildi ég vera endurskoðandi - sem er næstum því sami hluturinn."
Athugasemdir
banner
banner