Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   mið 29. ágúst 2018 18:52
Brynjar Ingi Erluson
Arnór á leið í læknisskoðun hjá CSKA Moskvu
Arnór Sigurðsson er á leið til Rússlands
Arnór Sigurðsson er á leið til Rússlands
Mynd: Norrköping
Sænska félagið Norrköping samþykkti í dag tilboð CSKA Moskvu í Arnór Sigurðsson en þetta herma áreiðanlegar heimildir Fótbolta.net. Hann fer í læknisskoðun í München í Þýskalandi á morgun.

Arnór, sem er 19 ára gamall, gekk til liðs við Norrköping frá ÍA á síðasta ári og hefur tekist að heilla í sænsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.

Rússneska félagið CSKA Moskva hefur lagt fram nokkur tilboð í Arnór en Norrköping hafði hafnað öllum tilboðum fram að tilboðinu í dag en kaupverðið er í kringum 4 milljónir evra.

Samkvæmt öruggum heimildum Fótbolta.net flaug Arnór til Þýskalands í morgun og fór hann í gegnum fyrri hlutann í læknisskoðuninni í dag í München áður en hann klárar síðari hlutann á morgun og skrifar í kjölfarið undir langtímasamning við CSKA.

Arnór verður annar Íslendingurinn hjá CSKA Moskvu en Hörður Björgvin Magnússon gekk til liðs við félagið frá Bristol City í sumar fyrir um 2,5 milljónir evra.

Hann verður þá sjötti Íslendingurinn í rússnesku deildinni en Sverrir Ingi Ingason, Ragnar Sigurðsson og Björn Bergmann Sigurðarson leika allir fyrir Rostov. Þá leikur Jón Guðni Fjóluson með Krasnodar en hann kom einmitt frá Norrköping í sumar.
Athugasemdir
banner
banner