Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 04. janúar 2021 22:01
Brynjar Ingi Erluson
England: Ekkert gengur hjá Liverpool - Tap gegn Southampton
Danny Ings og Thiago í baráttunni í leiknum í kvöld
Danny Ings og Thiago í baráttunni í leiknum í kvöld
Mynd: Getty Images
Southampton 1 - 0 Liverpool
1-0 Danny Ings ('2 )

Southampton lagði Liverpool að velli, 1-0, í ensku úrvalsdeildinni í kvöld en leikurinn fór fram á St. Mary's-leikvanginum. Þetta er þriðji leikurinn í röð þar sem Liverpool mistekst að ná í sigur.

Jordan Henderson byrjaði í miðverði hjá Englandsmeisturunum við hlið Fabinho á meðan Thiago var mættur aftur í byrjunarliðið eftir rúmlega tveggja mánaða fjarveru.

Ekki byrjaði það vel fyrir gestina. Danny Ings, fyrrum leikmaður liðsins, kom Southampton yfir á 2. mínútu. Southampton átti aukaspyrnu sem James Ward-Prowse kom inn vinstra megin í teiginn.

Trent Alexander-Arnold varðist illa gegn Ings sem lyfti boltanum yfir Alisson Becker í markinu. Southampton átti nokkur góð færi í fyrri hálfleiknum og Liverpool í raun heppið að vera ekki 2-0 eða 3-0 undir.

Mohamed Salah átti skalla rétt yfir markið undir lok fyrri hálfleiks áður en flautað var til hálfleiks. Í byrjun þess síðari vildi Liverpool fá vítaspyrnu er Gini Wijnaldum þrumaði boltanum í höndina á Jack Stephens en eftir að VAR skoðaði atvikið var ákveðið að gefa ekki víti.

Alisson fór inn í teig andstæðingana undir lokin til að reyna að ná í stig. Leikmenn Southampton einbeittu sér full mikið að Alisson og var Sadio Mane í dauðafæri en skalli hans fór yfir.

Lokatölur 1-0 fyrir Southampton. Manchester United á nú góðan möguleika á að hirða toppsætið af liðinu. Slakt gengi Liverpool í síðustu leikjum á meðan Ralph Hassenhüttl, stjóri Southampton, getur fagnað því Southampton er nú í 6. sæti með 29 stig.
Athugasemdir
banner