Búast við því að Van Dijk geri nýjan samning - Arsenal vill Cunha - Akliouche meðal leikmanna á blaði City
   fös 26. apríl 2024 18:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Persónulega þykir mér mjög vænt um síðasta tímabil"
Vigfús Arnar Jósefsson - Leiknir R.
Lengjudeildin
Vigfús Arnar Jósefsson, þjálfari Leiknis.
Vigfús Arnar Jósefsson, þjálfari Leiknis.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Leiknismönnum er spáð sjöunda sæti.
Leiknismönnum er spáð sjöunda sæti.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Fúsi er mikill Leiknismaður.
Fúsi er mikill Leiknismaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Við getum þetta ekki án ykkar og saman eru okkur allir vegir færir'
'Við getum þetta ekki án ykkar og saman eru okkur allir vegir færir'
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
„Við erum ótrúlega spenntir fyrir því að byrja og hlökkum mikið til sumarsins. Við höfum lagt hart að okkur á undirbúningstímabilinu við að bæta og þróa leik okkar. Við höfum minni áhuga á því hvað öðrum finnst um okkur, okkar einbeiting er á markmiðunum okkar," segir Vigfús Arnar Jósefsson, þjálfari Leiknis, í samtali við Fótbolta.net.

Leiknismönnum er spáð sjöunda sæti en það kemur líklega nokkuð mörgum á óvart.

„Það hefur gengið vel í vetur að bæta leik okkar og stækka vopnabúrið. Við höfum verið óheppnir með meiðsli og það hefur verið áskorun á köflum í vetur, en það horfir til betri vegar nú. Yngri og eldri leikmenn hafa tekið framförum, við erum alltaf að læra eitthvað nýtt. Fórum í mjög góða æfingaferð til Spánar nú á vordögum sem var nýtt til að þjappa hópnum enn betur saman," segir Fúsi.

Lærdómsríkt tímabil
Fúsi, sem er mikill Leiknismaður, sneri aftur í Breiðholtið fyrir síðasta tímabil og tók þá við sem aðalþjálfari eftir að Sigurður Heiðar Höskuldsson hætti. Síðasta tímabil var svo sannarlega áhugavert þar sem Breiðhyltingar byrjuðu ekki vel og það munaði litlu að það yrðu þjálfaraskipti, en Leiknisliðið náði að þjappa sér vel saman og komst að lokum í úrslitakeppnina.

„Síðasta tímabil var lærdómsríkt fyrir allan hópinn. Við unnum fyrsta leik en lentum síðan í miklu mótlæti. Við héldum í okkar gildi allan tímann meðan á því gekk og þrautseigja og trú hópsins leiddi til þess að við unnum okkur út úr því," segir Fúsi.

„Við vorum ósigrandi á tímabili og tryggðum okkur inn í umspilið nokkuð örugglega. Persónulega þykir mér mjög vænt um síðasta tímabil því ég sá úr hverju leikmennirnir mínir eru gerðir."

„Við þjálfararnir komum með algjörlega nýjar áherslur í leik liðsins fyrir síðasta tímabil og leikmennirnir svöruðu mjög vel áskoruninni að takast á við nýjan leikstíl, sýndu áhuga og gáfu af sér við að þróa hann. Við viljum spila fótbolta sem gefur okkur árangur til lengri tíma ef við gerum það vel, frekar en að tjalda til einnar nætur í þeim efnum. Einnig viljum við spila fótbolta sem Leiknisfjölskyldan vill koma og horfa á og er stolt af."

Það hefur gengið vel á markaðnum
Fúsi segir að það hafi gengið vel að styrkja liðið í vetur og er hann ánægður með hópinn.

„Nýju leikmennirnir hjá okkur hafa komið mjög vel inn í hópinn og styrkja okkur fyrir þetta tímabil," segir þjálfari Leiknismanna.

„Það hefur gengið vel á markaðnum, við þurftum að styrkja ákveðnar stöður innan hópsins og það hefur tekist. Staðan á hópnum er góð fyrir fyrsta leik, en menn hafa verið að koma úr meiðslum á síðustu vikum."

Getum þetta ekki án ykkar
Það má búast við gríðarlega skemmtilegri Lengjudeild í sumar og er gríðarlega erfitt að spá í spilin.

„Ég held að deildin verði mjög jöfn og þau lið sem geta unnið leiki á fleiri en einn hátt muni ganga vel. Mörg lið eru að leggja mikið í þetta og það verður hörð samkeppni," segir Fúsi en markmið Leiknismanna er einfalt.

„Að gera betur en síðasta sumar."

Einhver skilaboð að lokum?

„Ég vill hvetja Leiknisfjölskylduna til að standa þétt við bakið á liðinu, mæta vel á leikina og gefa af sér til liðsins. Við getum þetta ekki án ykkar og saman eru okkur allir vegir færir."
Athugasemdir
banner
banner
banner