Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 05. október 2015 12:35
Magnús Már Einarsson
ÍBV í þjálfaraleit fimmta árið í röð - „Erum í góðri æfingu"
Ingi Sigurðsson í stjórn knattspyrnudeildar ÍBV.
Ingi Sigurðsson í stjórn knattspyrnudeildar ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jóhannes Harðarson gat ekki haldið áfram með ÍBV.
Jóhannes Harðarson gat ekki haldið áfram með ÍBV.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Menn vilja hafa meiri stöðugleika og þurfa ekki að gera þetta á hverju einasta hausti. Svona er lífið, þetta kemur upp og það þarf að taka á því. Við getum sagt að við séum í góðri æfingu," sagði Ingi Sigurðsson stjórnarmaður ÍBV við Fótbolta.net í dag.

ÍBV er í kunnulegum slóðum en leit stendur yfir að nýjum þjálfara fyrir næsta tímabil í Pepsi-deildinni. Frá því að Heimir Hallgrímsson hætti árið 2011 hefur ÍBV alltaf þurft að skipta um þjálfara á haustin.

Ráðningar ÍBV á haustin:
2011: Magnús Gylfason
2012: Hermann Hreiðarsson
2013: Sigurður Ragnar Eyjólfsson
2014: Jóhannes Harðarson
2015: ?????

Jóhannes Harðarson neyddist til að taka sér frí frá þjálfun ÍBV í sumar af persónulegum ástæðum og Ásmundur Arnarsson stýrði liðinu út tímabilið. Bæði Jóhannes og Ásmundur gáfu ÍBV afsvar í síðustu viku um að halda áfram með liðið.

„Aðstæður Jóa eru ekki þannig að hann getur ekki haldið áfram. Við vorum búnir að segja að Ási væri okkar fyrsti kostur ef svo væri. Það hefði verið frábært ef hann hefði séð sér fært að útfæra það þannig að hann gæti haldið áfram. Hann er búinn að vera núna í einhverja þrjá mánuði og er búinn að kynnast umhverfinu og mannskapnum. Það gekk hins vegar ekki upp og við förum því í leitina," sagði Ingi en Eyjamenn eru byrjaðir að horfa í kringum sig.

„Þegar svarið frá Ása kom fyrir helgina þá ákváðum við að hugsa málið í nokkra daga og velta fyrir okkur nöfnum. Við erum í þeim sporum. Við fundum í dag og tökum þá ákvörðun um það hvaða menn við ætlum að setja okkur í samband við."

Jóhannes gerði þriggja ára samning við ÍBV í fyrra og flutti til Eyja. ÍBV vill ráða þjálfara sem er búsettur í Vestmannaeyjum.

„Ef stór hluti í mannskapnum væri búsettur í Reykjavík þá væri minna vægi á það. Núna eru hlutirnir þannig að leikmenn eru búsettir hérna allt árið um kring og við viljum að þjálfarinn sé hér. Það eru einhverjir skólastrákar í bænum og við leysum það en við viljum reyna að fá þjálfara sem er búsettur í Eyjum," sagði Ingi.
Athugasemdir
banner
banner
banner