Salah, Rashford, Guehi, Ten Hag, Dewsbury-Hall og fleiri í pakka dagsins
   fös 06. október 2017 22:00
Arnar Daði Arnarsson
Hver er þessi Pyry Soiri?
Icelandair
Mynd: Twitter
Eftir að úrslitin í næst síðustu umferð Undankeppni HM er ljóst að Ísland getur tryggt sér farseðilinn á HM í Rússlandi næsta sumar, með sigri á Kosovó á Laugardalsvelli á mánudagskvöld.

Rétt áður en flautað var til leiksloka í Eskisehir í Tyrklandi í kvöld þar sem Ísland vann mikilvægan 3-0 sigur á Tyrkjum jafnaði finnski landsliðsmaðurinn Pyry Soiri metin fyrir Finna í Króatíu, 1-1 og þannig urðu lokatölur.

Þau úrslit þýddu að Ísland fór upp fyrir Króatíu á stigum í riðlinum og varð Pyry Soiri á einu augabragði svokölluð þjóðarhetja í augum margra Íslendinga.

Íslendingar á samfélagsmiðlum hafa verið duglegir að tala um þennan 23 ára Finna eftir að hann jafnaði metin. En hundur skal undirritaður heita, ef einhver Íslendingur hafði hugmynd um það hver Pyry Soiri var í upphafi dagsins í dag.

Pyry Soiri heitir reyndar fullu nafni Pyry Henri Hidipo Soiri er eins og fyrr segir, 23 ára fæddur 22. september árið 1994. Hann er hálfur Finni og hálfur Namibískur en faðir hans er frá Namibíu. Hann fæddist í smábænum Ekenäs í suður Finnlandi en fluttur ungur til Afríku.

Meistaraflokks ferill hans hófst í Finnlandi árið 2011 með Myllykosken Pallo -47 eða MYPA sem lék þá í efstu deild í Finnlandi en er nú í fjórðu efstu deild. Hann náði þó ekki að festa sig í sessi þar og var lánaður til JäPS og KTP í þriðju efstu deild áður en hann gekk í raðir VPS sem leikur í efstu deild í Finnlandi. Þar skoraði hann 14 mörk í 62 leikjum.

Í dag leikur hann nú með liði Shaktyor Soligorsk í Hvíta-Rússlandi og hefur hann skorað þrjú mörk í 19 leikjum. Shaktyor eru efstir í deildinni tveimur stigum á undan BATE.

Soiri hefur verið funheitur upp á síðkastið en hann hefur skorað tvö mörk í síðustu þremur leikjum sínum í Hvíta-Rússlandi og þetta var því hans þriðja mark á innan við þremur vikum.

Landsleikurinn í kvöld var hans fyrsti landsleikur fyrir Finna en hann á að baki sex leiki fyrir U-21 árs landsliðs Finna.

Hann virðist ekkert vera alltof þekktur miðað við fylgjendur á samfélagsmiðlum. En þegar þetta er skrifað er hann ekki með nema 482 fylgjendur á Twitter og 1347 fylgjendur á Instagram. Þeim á líklega bara eftir að fjölga.



Athugasemdir
banner
banner