Man Utd eflir leit sína að liðsstyrk - David ofarlega á blaði - Ítölsk félög vilja Greenwood - Liverpool vill Olise
   þri 30. apríl 2024 10:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Það hefur bara verið draumi líkast"
Sigurður Heiðar Höskuldsson - Þór
Lengjudeildin
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs.
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Þórsarar fagna marki í Mjólkurbikarnum á dögunum.
Þórsarar fagna marki í Mjólkurbikarnum á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Siggi var aðstoðarþjálfari Vals í fyrra.
Siggi var aðstoðarþjálfari Vals í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Birkir Heimisson kemur með mikið Þórshjarta í liðið.
Birkir Heimisson kemur með mikið Þórshjarta í liðið.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
„Tímabilið held ég að leggist nokkuð vel í alla Þórsara. Mér líður þannig. Við finnum allavega fyrir miklum krafti frá stuðningsmönnum og það er nákvæmlega það sem við vorum að vonast eftir þegar við fórum af stað í byrjun vetrar," segir Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs, í samtali við Fótbolta.net.

Þórsurum er spáð öðru sæti Lengjudeildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

„Undirbúningstímabilið hefur spilast þannig úrslitalega séð að margir hafa trú á liðinu og því kemur þessi spá svosem ekki mikið á óvart."

Draumi líkast
Sigurður Heiðar tók við Þórsurum í vetur en Akureyrarfélagið lagði mikið á sig til að fá hann í Þorpið. Hann segir að það hafi verið draumi líkast að koma innn í þetta nýja starf.

„Það hefur bara verið draumi líkast. Það getur verið snúið að flytja heila fjölskyldu út á land og margir hlutir sem þurfa að ganga upp. Fram að þessu gæti ég ekki verið ánægðari með þá ákvörðun að stökkva á þetta tækifæri. Mér hefur verið tekið alveg ótrúlega vel af öllum í kringum félagið og samstarfið við samstarfsfélaga, stjórn og stuðningsmenn gæti ekki hafa farið betur af stað," segir Siggi en veturinn hefur verið virkilega góður fyrir liðið.

„Veturinn hefur gengið vel. Hann hefur verið snjóþungur hérna fyrir norðan og Boginn því verið nýttur til hins ítrasta. Að mínu mati er aðstaðan og umhverfið til að búa til góða fótboltamenn og gott lið hérna í Þorpinu svo sannarlega til staðar. Yngri flokkar félagsins finnst mér vera á frábærum stað og það sést vel á því að 17 af 22 leikmönnum sem spiluðu í Lengjubikarnum í vetur voru uppaldir Þórsarar."

„Ég þekkti leikmannahópinn lítið áður en ég mætti en hann hefur komið mér mjög skemmtilega á óvart. Leikmenn eru tilbúnir að leggja mikið á sig og hafa gert í allan vetur. Það hefur sýnt sig í frammistöðum bæði á æfingum og leikjum og ég finn fyrir mikilli eftirvæntingu í liðinu fyrir komandi tímabili."

Gengið vonum framar
Þórsarar hafa bætt afar sterkum leikmönnum við hóp sinn fyrir tímabilið og er það stærst að Birkir Heimisson er mættur heim úr Val. Rafael Victor er þá kominn frá Njarðvík en hann hefur alla burði til að vera besti sóknarmaður deildarinnar.

„Það hafa svosem ekki verið miklar breytingar á hópnum og í sjálfu sér fleiri sem hafa farið frá okkur en komið inn. 4-5 mikilvægir póstar í liðinu frá því á síðasta tímabili hafa farið en í staðinn höfum við fengið fjóra nýja leikmenn plús tvo sem voru á láni í 2. deildinni í fyrra. Það er kúnst að finna leikmenn sem passa inn í þann kúltúr sem þú ert að reyna búa til hjá nýju félagi og ég held að það hafi gengið framar vonum hjá okkur í vetur," segir Siggi.

„Birkir Heimisson kemur með alvöru Þórshjarta og mikla reynslu úr efstu deild. Rafael Victor hefur sýnt að hann kann að skora í þessari deild. Árna Elvar þekki ég mjög vel frá tíma okkar saman í Leikni. Hann hefur reynslu af því að fara uppúr deildinni og það gerir Jón Jökull líka eftir tíma hans hjá ÍBV. Auðunn Ingi og Sigfús Fannar koma svo aftur heim eftir mjög vel heppnaða lánsdvöl á Dalvík þar sem þeir spiluðu stórt hlutverk í því að vinna 2. deildina í fyrra."

Deildin verði ógnarsterk
Þórsurum er spáð afar góðu gengi en Siggi býst við því að deildin verði ógnarsterk í sumar.

„Ég er sannfærður um að deildin í ár verður mjög jöfn og ógnarsterk. Lengjudeildarlið hafa til að mynda sjaldan eða aldrei gert eins vel heilt yfir í Lengjubikarnum eins og í vetur. Mig grunar að liðin sem spáð eru í neðri hlutanum séu töluvert öflugri en margir halda og mörg lið sem geta komið á óvart. Þar að auki held ég að það hafi sjaldan verið jafn margir spennandi þjálfarar, með mismunandi leikstíla, í deildinni eins og í ár sem gerir það að verkum að undibúningur fyrir stakar viðureignir verður ennþá skemmtilegri og meira krefjandi," segir þjálfari Þórsara en hver eru markmið liðsins?

„Sú vinna sem leikmenn, stjórn og félagið sem heild hefur lagt í að undirbúa liðið fyrir tímabilið finnst mér krefjast þess að liðið berjist um það að enda að minnsta kosti í umspilssæti."

Að lokum, einhver skilaboð?

„Ég vil að lokum þakka öllum innan félagsins, í kringum félagið og bara öllum Þórsurum fyrir frábærar móttökur og vonandi get ég og liðið þakkað fyrir það með góðri, skemmtilegri og árangsursríkri frammistöðu inná vellinum í sumar. Þórsarar eru þekktir fyrir að vera með einhverja bestu og hörðustu stuðningsmenn landsins og ég er sannfærður um að það verði raunin í sumar."
Athugasemdir
banner