þri 30.apr 2024 11:00 Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir |
|
Spá þjálfara og fyrirliða í Lengjudeild kvenna: 6. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeild kvenna í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð í deildinni. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið. Liðin fengu stig frá 1-9 en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Grindavík er spáð sjötta sætinu.
Ása Björg Einarsdóttir spilaði hverja einustu mínútu í Lengjudeildinni í fyrra.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Það hefur gengið ótrúlega vel þrátt fyrir allt það sem á undan hefur gengið í vetur. Stelpurnar eiga endalaust hrós skilið fyrir þá vinnu, dugnað og þolinmæði sem þær hafa sýnt í þessum aðstæðum í vetur sem enginn þekkir og vonandi að enginn annar þurfi að upplifa'
Mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
1.
2.
3.
4.
5.
6. Grindavík, 81 stig
7. Selfoss, 76 stig
8. Grótta, 61 stig
9. ÍA, 56 stig
10. ÍR, 21 stig
6. Grindavík
Eins og allir vita þá hefur mikið gengið á í Grindavík í vetur. Ömurlegar jarðhræðingar hafa breytt lífi Grindvíkinga og íþróttalífið í bænum er vægast sagt flókið. Þegar jarðhræringarnar hófust þá myndaðist ákveðin óvissa um fótboltann en það hefur verið haldið vel utan um meistaraflokka félagsins og vel tekið utan um þá í þessum erfiðleikum. Kvennaliðinu er spáð sjötta sætinu í Lengjudeildinni eftir að hafa endað þar í fyrrasumar. Grindavíkurliðið er með stórt hjarta og þær ætla að spila fyrir bæjarfélagið sitt í sumar.
Þjálfarinn: Anton Ingi Rúnarsson er á leið inn í sitt annað tímabil sem aðalþjálfari Grindavíkur. Hann var áður aðstoðarþjálfari Grindavíkurliðsins og þekkir félagið inn og út. Anton er ungur að árum en hann er aðeins 28 ára gamall en hann hefur líka verið að starfa í yngri flokkum Grindavíkur. Hann er afar metnaðarfullur þjálfari sem vann flott starf í fyrra og stefnir eflaust á að fylgja því eftir í sumar.
Styrkleikar: Grindavik er með sterkan kjarna af heimastelpum sem þekkja hvor aðra vel. Þær hafa styrkt sig í öftustu línu með tveimur atvinnumönnum og markmanni - stöður sem voru til vandræða hjá þeim í vetur. Þær spila mjög skemmtilegan fótbolta, með sterk gildi sem lið og er Anton þjálfari þeirra mjög spennandi þjálfari. Leikmenn liðsins eru tilbúnar að gera ansi mikið fyrir félagið og bæjarfélagið sitt, en stemningin og samheldnin munu fara með þær langt.
Veikleikar: Breiddin er ekki sérlega mikil í Grindavíkurliðinu, og svo hjálpar það væntanlega ekki að spila ekki á sínum heimavelli í Grindavík. Liðið hefur verið að æfa hér og þar, og hefur verið erfitt að raða upp æfingum yfir veturinn. Óvissan hefur eflaust verið erfið. Það má því draga þá ályktun að standið á liðinu er kannski ekki það sama og í fyrra, en Grindavik var lið sem var í toppstandi þá.
Lykilmenn: Ása Björg Einarsdóttir, Dröfn Einarsdóttir, Emma Kate Young.
Fylgist með: Emma Fanndal er áhugaverður leikmaður sem getur leyst margar stöður. Er með góðan fót, sterk og fljót og hefur sýnt mjög jákvæða frammistöðu í vetur. Mist Smáradóttir er annar leikmaður sem verður spennandi að fylgjast með. Lánsmaður frá Stjörnunni sem er að koma til baka eftir meiðsli.
Komnar:
Aubrey Goodwill frá Bandaríkjunum
Dröfn Einarsdóttir frá Keflavík
Emma Kate Young frá Bandaríkjunum
Júlía Ruth Thasaphong frá Keflavík
Katelyn Kellogg frá Fjölni
Margrét Ingþórsdóttir frá FH
Mist Smáradóttir frá Stjörnunni (á láni)
Nína Zinovieva frá Fylki (á láni)
Farnar:
Arianna Lynn Veland
Dominiqe Evangeline Bond-Flasza til Frakklands
Heiðdís Emma Sigurðardóttir til Stjörnunnar (var á láni)
Jada Lenise Colbert til Kýpur
Jasmine Aiyana Colbert til Kýpur
Þann 10. nóvember gjörbreytast svo allar aðstæður
Anton Ingi Rúnarsson, þjálfari Grindavíkur, segir að spáin komi ekki mikið á óvart. Það sé fátt sem komi Grindvíkingum á óvart um þessar mundir.
„Þetta er tveimur sætum hærra en okkur var spáð í fyrra sem segir okkur að mannskapurinn sé farin að hafa örlítið meiri trú á okkur en í fyrra og er þetta sami staður og við enduðum síðasta tímabili á."
„Nei það er orðið mjög erfitt að koma okkur Grindvíkingum á óvart frá því 10. nóvember og kemur spáin því ekkert svakalega á óvart. Ég átti nú sjálfur í stökustu vandræðum með að spá í spilin þar sem Lengubikarinn var mjög jafn í ár og sést það vel á stigatöflunni og stefnir í enn jafnari deild í ár."
„Síðsta tímabil var kaflaskipt og reynslumikið bæði fyrir mig sem þjálfara og stelpurnar sjálfar. Við bættum stigasöfnunina um átta stig, markaskorun um 23 mörk en fáum á okkur sjö fleiri en árinu áður. Heilt yfir var þetta gott skref upp á við í þeirri vinnu sem við Jón Óli hófum saman tímabilið 2021. Þegar ég horfi til baka þá eru fullt af góðum hlutum sem við erum að taka með okkur yfir í þetta tímabil og aðrir hlutir sem við teljum okkur hafa lært af og ætlum okkur að nýta það vel á komandi tímabil. Þannig ég skildi nokkuð sáttur við síðasta tímabil og erum við klár að taka enn stærra skref."
„Undirbúningstímabilið fór vel af stað þann 1. nóvember og voru öll plön klár og mikil tilhlökkun í hópnum. Þann 10. nóvember gjörbreytast svo allar aðstæður og öll okkar plön og æfingaaðstaða fóru beinustu leið til helvítis. Hófst strax mikil vinna í að endurskipuleggja allt starfið og eigum við öllum þeim félögum mikið að þakka fyrir ómetanlega aðstoð í vetur. Alex vallarstjóri á Álftanesi, Stjarnan og Fylkir gjörsamlega gripu okkur í meistaraflokki kvenna og munum við líklegast aldrei getað þakkað þeim nægilega mikið fyrir þá hjálparhönd sem þau hafa rétt okkur. Við höfum æft á tíu mismunandi völlum í vetur og hefur allt okkar æfingadót átt heima í skottinu á bílnum í vetur. Við þökkum fyrir það að hafa getað æft eins þétt og kröftuglega og hægt var á þessum tímum. Þrátt fyrir að hafa ekki vitað oft nema með dags fyrirvara hvar við myndum æfa, þá hefur hópurinn dílað mjög vel við það."
„Það hefur gengið ótrúlega vel þrátt fyrir allt það sem á undan hefur gengið í vetur. Stelpurnar eiga endalaust hrós skilið fyrir þá vinnu, dugnað og þolinmæði sem þær hafa sýnt í þessum aðstæðum í vetur sem enginn þekkir og vonandi að enginn annar þurfi að upplifa. En þetta sýnir okkur það að við erum mjög sterk sem heild og eru allar tilbúnar að berjast fyrir hvor aðra."
„Það eru nokkrar breytingar frá síðasta tímabili við skiptum út öllum erlendu leikmönnunum fra því í fyrra en gerðum heiðarlega tilraun til þess að halda tvíburunum. Heiðdís fer til baka úr láni og Viktoría Sól tók sér pásu frá fótbolta. Við töluðum um fyrir síðasta tímabil að reyna ná fleiri Grindvískum leikmönnum heim og tókst það nokkuð vel þar sem Dröfn og Júlía Ruth koma frá Keflavík, Unnur og Ísabel taka skóna fram á nýjan leik og fjölgar heimastelpunum um fjórar sem er gífurlega ánægjulegt. Mist Smáradóttir framlengdi lánssamninginn frá Stjörnunni og svo bættust erlendu leikmennirnir Emma Young, Katelyn og Aubrey í hópinn okkar fyrir komandi átök. Við erum nokkuð sátt við gluggann hjá okkur þó við höfum reynt að stækka hópinn örlítið undir lok gluggans sem gekk ekki upp að þessu sinni."
„Deildin í fyrra var jöfn og skemmtileg en ég býst við enn harðari keppni í ár. Miðað við úrslitin í lengjubikarnum í vetur virðast allir geta unnið alla og lofar þetta sumar mjög skemmtilegri deild. Mér heyrist að öll lið stefni að því sama að leika í deild þeirra bestu að komandi ári. Okkar markmið eru að enda nokkrum sætum ofar en í fyrra og veita hinum liðunum harða keppni um sætin í Bestu deildinni á komandi ári."
„Ég vil bara hrósa og þakka öllum þeim sem hafa lagt sitt að mörkum svo íþróttasamfélagið í Grindavík gat haldið áfram leik í öllum þeim keppnum og íþróttagreinum sem við spilum í. Það þarf ekki að líta langt til þess að sjá hvað það er sem sameinar samfélagið í Grindavík þar sem laugardagurinn 18. nóvember í Smáranum sýndi einhvað sem enginn hefur séð eða upplifað áður. Mætum áfram á vellina í sumar og vetur og styðjum við bakið á okkar íþróttafólki."
„Áfram Grindavík í einu og öllu."
Fyrstu þrír leikir Grindavíkur:
6. maí, ÍA - Grindavík (Akraneshöllin)
13. maí, Grindavík - HK (Stakkavíkurvöllur-Safamýri)
23. maí, Afturelding - Grindavík (Malbikstöðin að Varmá)