þri 30.apr 2024 14:00 Mynd: Fótbolti.net - Raggi Óla |
|
Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina: 1. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Aftureldingu er spáð toppsætinu.
Elmar Kári Enesson Cogic er virkilega hæfileikaríkur leikmaður.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. Afturelding, 223 stig
2. Þór, 210 stig
3. Keflavík, 205 stig
4. ÍBV, 176 stig
5. Grindavík, 154 stig
6. Fjölnir, 146 stig
7. Leiknir R., 143 stig
8. Þróttur R., 87 stig
9. Grótta, 83 stig
10. Njarðvík, 68 stig
11. ÍR, 66 stig
12. Dalvík/Reynir, 23 stig
1. Afturelding
Síðasta sumar situr örugglega enn smávegis í Mosfellingum. Liðið var á toppnum með góða forystu lengi vel, en það tapaðist niður á seinni hluta tímabilsins. Afturelding endaði að lokum í öðru sæti og það hefði dugað fyrir sæti í Bestu deildinni öll önnur tímabil, en það var komið nýtt fyrirkomulag - umspilið. Afturelding fór í gegnum Leikni í umspilinu en tapaði í úrslitaleiknum gegn Vestra á Laugardalsvelli. Það var eflaust erfitt að jafna sig á þessu, en samkvæmt þjálfurum og fyrirliðum er Afturelding líklegasta liðið til að fara beint upp í sumar.
Þjálfarinn: Heimamaðurinn Magnús Már Einarsson er á leið inn í sitt fimmta tímabil sem þjálfari Aftureldingar. Magnús er í flokki með yngri þjálfurunum í boltanum og er spennandi að fylgjast með því hvort liðið taki næsta skref undir hans stjórn í sumar, með því að komast upp. Afturelding spilar virkilega skemmtilegan fótbolta undir stjórn Magga og gaman er að mæta á völlinn í Mosfellsbæ.
Baldvin Már Borgarsson, þjálfari Árbæjar, er sérfræðingur Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina. Hann fer yfir liðin; þeirra styrkleika, veikleika og fleira. Í fyrra var hann aðstoðarþjálfari Ægis í Lengjudeildinni og þekkir hann því hana býsna vel.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldvin Már Borgarsson.
Styrkleikar: Liðið sem er komið hvað lengst í sínu verkefni undir Magga og Enes; spila virkilega skemmtilegan fótbolta og dóminera langflesta leiki.
Veikleikar: Hafa misst út mikla reynslu í Yevgen og Rasmus í öftustu línu. Spurning hvernig það kemur út í sumar.
Lykilmenn:
Oliver Bjerrum Jensen - Var frábær í fyrra og þarf hann að eiga gott tímabil ef Mosfellingar ætla að ná sínum markmiðum.
Aron Jóhannsson - Sá íslenski er mættur í Pizzabæinn, verður algjör lykilmaður í hinum umtalaða Maggiball.
Elmar Kári Enesson Cogic - Stimplaði sig inn sem einn besti leikmaður deildarinnar í fyrra. Þetta verður 100% hans síðasta tímabil í Lengjudeild. Ef Eldingin klúðrar því aftur að fara upp þá mæta sirka tólf lið úr Bestu deildinni með veskið í Mosfellsbæinn.
Fylgist með: Arnar Daði Jóhannesson, unglingalandsliðsmarkmaður sem fær traustið í sumar. Mjög efnilegur og spennandi strákur.
Komnir:
Aron Jóhannsson frá Fram
Aron Jónsson frá Brann
Hrannar Snær Magnússon frá Selfossi
Oliver Bjerrum Jensen alfarði frá Danmörku (var á láni)
Sigurpáll Melberg Pálsson frá Danmörku
Valgeir Árni Svansson frá Leikni
Patrekur Orri Guðjónsson frá Hvíta riddaranum (var á láni)
Farnir:
Ásgeir Marteinsson í Þrótt Vogum
Ásgeir Frank Ásgeirsson í Hvíta riddarann
Hjörvar Sigurgeirsson í Hött/Huginn
Hrafn Guðmundsson í KR
Ivo Braz til Portúgals
Jökull Jörvar Þórhallsson í Hvíta riddarann
Rasmus Christiansen til ÍBV
Rúrik Gunnarsson til KR (var á láni)
Dómur Badda fyrir gluggann: 7
Missa mikla reynslu og góða leikmenn en fylla upp ágætlega upp á móti, plúsinn hækkar aðeins við að krækja í heimamenn heim.
Fyrstu þrír leikir Þórs
3. maí, Afturelding - Grótta (Malbikstöðin að Varmá)
9. maí, Þór - Afturelding (VÍS völlurinn)
20. maí, Keflavík - Afturelding (HS Orku völlurinn)
Í besta og versta falli að mati Badda: Í besta falli vinna þeir deildina og í versta falli enda þeir í þriðja sæti.
Athugasemdir