Man Utd vill fá Watkins - Helmingslíkur á að Ten Hag verði áfram - PSG hefur áhuga á Mateta
   þri 30. apríl 2024 14:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Síðasta tímabil það besta í sögu félagsins en við viljum meira í ár"
Magnús Már Einarsson - Afturelding
Lengjudeildin
Magnús Már Einarsson.
Magnús Már Einarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aftureldingu er spáð toppsætinu.
Aftureldingu er spáð toppsætinu.
Mynd: Raggi Óla
'Síðasta tímabil var lærdómsríkt fyrir alla og við komum reynslunni ríkari til leiks'
'Síðasta tímabil var lærdómsríkt fyrir alla og við komum reynslunni ríkari til leiks'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvað gerir Afturelding í sumar?
Hvað gerir Afturelding í sumar?
Mynd: Raggi Óla
Það er mikil spenna í Mosfellsbæ fyrir tímabilinu. Síðasta tímabil var það besta í sögu félagsins en við viljum meira í ár," segir Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við Fótbolta.net.

Aftureldingu er spáð sigri í Lengjudeildinni af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

„Stemning fyrir fótboltanum hefur aukist í Mosfellsbæ ár frá ári og áhorfendatölurnar hafa fylgt gengi liðsins undanfarin ár og verið mjög vaxandi. Við erum gríðarlega spenntir að takast á við komandi sumar. Við áttum gott tímabil í fyrra og spáin endurspeglar það. Þegar út í mótið er komið þá skiptir spáin samt engu máli. Við búumst við 22 erfiðum leikjum og þurfum að hafa fyrir hverju einasta stigi í sumar."

Komum reynslunni ríkari til leiks
Eins og Maggi kemur inn á, þá var síðasta tímabil það besta í sögu Aftureldingar. Liðið var á toppnum með góða forystu lengi vel, en það tapaðist niður á seinni hluta tímabilsins. Afturelding endaði að lokum í öðru sæti og það hefði dugað fyrir sæti í Bestu deildinni öll önnur tímabil, en það var komið nýtt fyrirkomulag - umspilið.

Afturelding fór í gegnum Leikni í umspilinu en tapaði í úrslitaleiknum gegn Vestra á Laugardalsvelli á grátlegan hátt.

„Síðasta tímabil var lærdómsríkt fyrir alla og við komum reynslunni ríkari til leiks. Það hefði verið auðvelt að leggjast niður og vorkenna sér en við fórum hina leiðina og ákváðum að nýta vonbrigðin sem bensín fyrir komandi tímabil," segir Maggi.

„Við byrjuðu strax daginn eftir úrslitaleikinn í fyrra að kortleggja hvað við gætum gert betur og höfum unnið hart að því í vetur. Trúin er mikil í hópnum og hjá öllum sem að liðinu standa og við bíðum spenntir eftir fyrsta leik."

„Síðasta tímabil var skemmtilegt og við náðum flestum markmiðum okkar þar. Þó að við eigum margar góðar minningar frá síðasta sumri þá er það í baksýnisspeglinum núna og við horfum fram veginn á spennandi tímabil sem er framundan."

Ég er gríðarlega ánægður með hópinn
Afturelding hefur haldið í sama kjarna frá fyrra og Maggi er mjög svo ánægður með stöðuna á hópnum.

„Strákarnir hafa æft gríðarlega vel í vetur og ég er heppinn að hafa frábæra menn með mér í þjálfarateyminu sem hafa hjálpað okkur við að undirbúa okkur mjög vel bæði líkamlega og andlega. Umgjörðin í kringum liðið er einnig frábær hjá sjálfboðaliðum sem hjálpa okkur gríðarlega mikið,” segir þjálfarinn úr Mosfellsbæ.

„Ég er gríðarlega ánægður með hópinn. Liðsheildin er frábær hjá okkur. Við höfum mjög öfluga leikmenn í öllum stöðum og breiddin í hópnum hefur aldrei verið eins mikil. Leikmennirnir sem komu til okkar í vetur eru leikmenn sem við töldum að myndu passa inn í okkar leikstíl og liðsheildina hjá okkur og þeir hafa svo sannarlega smollið frábærlega inn í hópinn."

Viljum enda sæti ofar
Maggi býst við hörkudeild, eins og allir aðrir þjálfarar í deildinni. Það er erfitt að sjá eitthvað annað í kortunum.

„Ég býst við jafnri og spennandi deild þar sem öll lið geta tekið stig af hvort öðru. Það sýndi sig í fyrra að úrslitakeppnin býður upp á meiri spennu fram í lok móts og leiðir af sér fleiri stærri leiki sem eru skemmtilegir fyrir alla sem að liðunum koma," segir Maggi.

„Við höfum reynt að bæta árangur okkar ár frá ári og því segir það sig sjálft að við viljum enda sæti ofar en í fyrra. Við höfum lagt mikla vinnu á okkur í vetur og vonandi skilar það sér úti á vellinum í sumar."

Eitthvað að lokum?

„Ég vonast til að sjá sem flesta áhorfendur á leikjunum okkar í sumar, bæði á heima- og útivelli. Stuðningsmenn okkar hafa mætt frábærlega á leiki undanfarin ár og ég vonast eftir áframhaldandi stuðningi. Malbikstöðin að Varmá er líklega skemmtilegasti heimavöllur landsins vegna viðburða sem sjálfboðaliðar halda úti á leikjunum þar. Ég hvet alla fótboltaáhugamenn til að kíkja á leik í Mosfellsbæ og taka þátt í stemningunni. Hver vill ekki prófa að horfa á skemmtilegan fótboltaleik í heitum potti eða fara í klippingu á meðan á leik stendur?"
Athugasemdir
banner