Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mán 11. mars 2024 12:47
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Ekki hægt að fá nákvæmlega eins leikmenn í þeirra stað“
Halldór Árnason.
Halldór Árnason.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gísli Eyjólfsson.
Gísli Eyjólfsson.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Anton Logi Lúðvíksson.
Anton Logi Lúðvíksson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Anton Ari Einarsson.
Anton Ari Einarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halldór Árnason þjálfari Breiðabliks var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X977.

Halldór var aðstoðarþjálfari Óskars Hrafns Þorvaldssonar og var hækkaður um tign í Kópavoginum þegar Óskar tók við Haugesund í Noregi. Halldór segir að breytingin hafi ekki verið það mikil fyrir sig persónulega eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari hjá hópnum í fjögur ár.

Höfum verið mjög samstíga
„Ég hef alltaf haft sterka rödd og mikið að segja inni í teyminu. Maður hefur sína sýn á þetta og ákveðnir hlutir sem við í teyminu töldum þurfa að skerpa, breyta og fínpússa. Það hefur gengið nokkuð vel að koma okkar áherslum inn. Ég hef ekki mikið verið að líta í baksýnisspegilinn, er bara þakklátur fyrir traustið að fá að stýra þessu liði," segir Halldór.

Munu áhorfendur sjá breytingar á leikstíl Breiðabliks?

„Ég veit ekki hvort áhorfandinn í stúkunni muni sjá miklar breytingar. Ég hefði ekki unnið svona lengi og náið með Óskari ef ég væri með allt öðruvísi pælingar en hann. Við höfum verið mjög samstíga í þessu. Grunnhugmyndin í þessu liði um það hvernig við viljum spila er mjög sterk."

Það er áhyggjuefni
Hann segir þó ljóst að það þurfi að gera einhverjar breytingar, reyna að efla varnarleikinn og fylla skörð lykilmanna sem hafa horfið á braut.

„Það er auðvitað áhyggjuefni hversu mörg mörk við fengum á okkur í fyrra. Það er mjög erfitt að ætla að horfa framhjá því. Við erum með hugmyndir um hvernig við ætlum að laga ákveðna hluti," segir Halldór.

„Við höfum misst leikmenn sem hafa verið í stórum hlutverkum, Anton Logi (Lúðvíksson) hafði fengið lykilinn að uppspilinu okkar og Gísli (Eyjólfsson) keyrði pressuna áfram. Þeir eru einstakir á sinn hátt og ekki hægt að fá nákvæmlega eins leikmenn í þeirra stað. Við þurfum að finna lausnir á því en við erum með rosalega sterkan hóp og öfluga leikmenn svo ég er viss um að okkur tekst það. Það þarf bara aðeins breyta einhverjum hlutum."

Líður ekki eins og ég sé reynslulítill þjálfari
Talað hefur verið um hversu ungt nýja þjálfarateymið hjá Breiðabliki er.

„Mér líður ekki eins og ég sé reynslulítill þjálfari. Ég hef þjálfað mjög lengi. En þetta er mitt fyrsta starf á þessu getustigi og ég geri mér grein fyrir því. Það er mikilvægast að þeir sem eru í teyminu séu á sömu blaðsíðu og ég er þakklátur félaginu fyrir að hafa ráðið mig og ég fengið að setja saman þetta teymi."

Halldór fer fögrum orðum um aðstoðarmenn sína; Eyjólf Héðinsson, Eið Benedikt Eiríksson, Harald Björnsson markvarðaþjálfara og Helga Jónas Guðfinnsson styrktarþjálfara. Helgi er þekktari úr körfuboltasamfélaginu.

„Hann var í langan tíma meðal betri körfuboltanna landsins. Hann hefur mikla reynslu sem afreksmaður í íþróttum, atvinnumaður og landsliðsmaður. Hann þjálfaði líka og gerði Grindavík að Íslandsmeisturum og hann er með þjálfarareynslu. Þetta er geggjaður gæi sem hefur komið hrikalega vel inn í þetta. Í þessu sem við erum að gera, byggja upp álag og slíkt, hann er kominn svo langt í þessum pælingum," segir Halldór.

Misst marga af miðsvæðinu
Það hafa verið talsverðar breytingar á leikmannahópi Breiðabliks en Halldór er ánægður með gluggann.

„Mjög ánægður, ég er mjög ánægður með þessa stráka sem hafa komið inn. Mér líður mjög vel með hópinn," segir Halldór.

Norski sóknarmaðurinn Benjamin Stokke og danski miðvörðurinn Daniel Obbekjær eru meðal leikmanna sem Blikar hafa fengið. Eru þeir sóttir til að verða lykilmenn?

„Þeir eru sóttir til að spila, breikka hópinn og styrkja liðið. En það er auðvitað samkeppni um stöðurnar þeirra eins og aðrar. Hópurinn er minni en í fyrra, það eru aðeins færri leikmenn en hópurinn er mjög sterkur."

En ef hópurinn verður styrktur, er eitthvað sérstakt svæði á vellinum sem Halldór horfir til?

„Við höfum misst marga af miðsvæðinu; Anton Logi, Gísli, Ágúst Hlyns og Ágúst Orri, þetta eru fjórir miðjumenn sem eru farnir frá því fyrir ári og bara Gauti (Arnór Gauti Jónsson) sem hefur komið í staðinn. Það má ekki mikið út af bregða en ef allir eru heilir getum við stillt upp gríðarlega sterkri miðju og rúmlega það. En það yrði helst miðsvæðið sem við myndum skoða," segir Halldór.

Er ekki að fara að sækja markvörð
Markvarðarstaðan hjá Breiðabliki hefur mikið verið í umræðunni en Anton Ari Einarsson var langt frá sínu besta á síðasta tímabili. Halldór blæs þó á allar sögur um að Blikar ætli sér að fá inn nýjan markvörð.

„Ég er ekki að fara að sækja markmann. Ég er líka með Brynjar (Atla Bragason) og það voru einhverjar pælingar hvort hann gæti farið annað og orðið aðalmarkvörður einhverstaðar. Hann er klárlega nægilega góður til þess og þá hefði þurft að fá mann í staðinn. Anton hefur í langan tíma verið meðal bestu markvarða í deildinni, með þrjá Íslandsmeistaratitla og frábæran feril. Mér líður vel með Anton og Brynjar," segir Halldór.

„Halli (markvarðaþjálfari) var mjög ákveðinn í því þegar hann kom inn að það þyrfti ekki að sækja neinn markvörð, þessi gæjar væru geggjaðir og hann er búinn að vera að vinna með þá."

Halldór segir alveg ljóst að markmið Breiðabliks á komandi tímabili sé að enda á toppnum.

„Það er alveg klárt, áður en ég kem í Breiðablik er liðið að berjast um titlana. Eftir að hafa orðið Íslandsmeistarar 2022 og farið í þessa riðlakeppni þá ætlum við okkur að sjálfsögðu að berjast um þá titla sem eru í boði," segir Halldór Árnason,
Útvarpsþátturinn - Dóri Árna og enduskoðuð Lengjuspá
Athugasemdir
banner
banner