Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 14. mars 2021 18:33
Aksentije Milisic
England: Vítaspyrna Lacazette tryggði Arsenal sigur í grannaslagnum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Arsenal 2 - 1 Tottenham
0-1 Erik Lamela ('33 )
1-1 Martin Odegaard ('44 )
2-1 Alexandre Lacazette ('64 , víti)
Rautt spjald: Erik Lamela ('76)

Það var grannaslagur á dagskránni í dag í ensku úrvalsdeildinni þegar Arsenal og Tottenham Hotspur mættust á Emirates leikvangnum.

Pierre-Emerick Aubameyang var á bekknum hjá Arsenal í dag og kom ekkert við sögu. Hann mætti of seint í leikinn.

Heimamenn í Arsenal byrjuðu leikinn betur og sóttu mikið í upphafi leiks. Emile Smith-Rowe var sprækur í liði Arsenal og hann átti hörku skot sem small í þverslánni á sextándu mínútu leiksins.

Son Heung-min, leikmaður Tottenham, meiddist snemma leiks en hann virtist togna í lærinu. Erik Lamela kom inn á og hann átti eftir að láta af sér kveða.

Á 25. mínútu komst Alexandre Lacazette í fínt færi en skot hans fór hins vegar í innkast. Það var á 33. mínútu sem fyrsta mark leiksins kom og var það stórglæsilegt.

Varamaðurinn Erik Lame skoraði þá magnað mark með rabona skoti. Hann fékk sendingur frá Lucas Moura og tók hann Rabona skotið með fyrstu snertingu, klobbaði Thomas Partey og boltinn steinlá í fjærhorninu.

Arsenal sótti áfram og átti Cedric Soares skot í stöngina eftir flotta sókn. Skyttunum tókst svo að jafna metin rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Martin Odegaard skoraði þá eftir undirbúning frá Kieran Tierney. Skot Odegaard hafði viðkomu í varnarmanni og því óverjandi fyrir Hugo Lloris.

Jose Mourinho, stjóri Tottenham, tók Gareth Bale af velli snemma í síðari hálfleiknum. Bale virtist mjög hissa á skiptingunni. Á 62. mínútu gerðist umdeilt atvik. Lacazette var að komast í færi en þegar hann ætlaði að skjóta hitti hann hreinlega ekki knöttinn. Davinson Sanchez kom á fullri ferð og virtist fara aðeins í Lacazette. Michael Oliver dæmdi vítaspyrnu.

Lacazette fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Varamaðurinn Erik Lamela var áfram í sviðsljósinu en hann fékk rautt spjald þegar um fimmtán mínútur voru til leiksloka. Hann fékk sitt annað gula spjald fyrir að slá út hendinni í andlit Tierney.

Harry Kane hélt að hann hefði jafnað metin með skalla á 83. mínútunni en flaggið fór hins vegar á loft og Kane dæmdur rangstæður. Kane var aftur á ferðinni á 89. mínútu en hann tók þá aukaspyrnu sem hafnaði í stönginni.

Tottenham reyndi allt sem það gat til að jafna leikinn en það tókst ekki. Liðið er nú í sjöunda sæti með 45 stig en Arsenal er í því tíunda með 41.
Athugasemdir
banner
banner