Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 17. mars 2024 18:18
Brynjar Ingi Erluson
Enski bikarinn: Ótrúleg dramatík er Man Utd vann Liverpool á Old Trafford
Mynd: Getty Images
Harvey Elliott kom Liverpool yfir í framlengingu en átti síðan stór mistök sem kostuðu sigurmarkið
Harvey Elliott kom Liverpool yfir í framlengingu en átti síðan stór mistök sem kostuðu sigurmarkið
Mynd: Getty Images
Amad Diallo fagnar marki sínu og fékk að líta rauða spjaldið stuttu síðar
Amad Diallo fagnar marki sínu og fékk að líta rauða spjaldið stuttu síðar
Mynd: Getty Images
Manchester Utd 4 - 3 Liverpool
1-0 Scott McTominay ('10 )
1-1 Alexis MacAllister ('44 )
1-2 Mohamed Salah ('45 )
2-2 Antony ('87 )
2-3 Harvey Elliott ('105 )
3-3 Marcus Rashford ('112 )
4-3 Amad Diallo ('120 )

Manchester United mun spila í undanúrslitum enska bikarsins, en þetta varð ljóst eftir að liðið lagði Liverpool að velli, 4-3, eftir framlengingu á Old Trafford í dag. Amad Diallo skoraði sigurmarkið undir lok framlengingar.

Það voru heimamenn í United sem byrjuðu leikinn betur og voru í raun betri leikinn framan af.

Scott McTominay skoraði fyrsta mark liðsins á 10. mínútu leiksins eftir að Caoimhin Kelleher varði skot Alejandro Garnacho í áttina að McTominay sem potaði boltanum í netið.

Þegar fór að líða á hálfleikinn komst Liverpool betur inn í hlutina og dró til tíðinda á 38. mínútu er Wataru Endo kom boltanum í netið eftir sendingu Mohamed Salah, en markið var dæmt af þar sem Salah var í rangstöðu þegar hann fékk boltann.

Liverpool hélt áfram að herja á United og var það Alexis Mac Allister sem jafnaði metin. Jarell Quansah tók hlaup að hætti Joel Matip, inn í teig United áður en hann setti boltann á Darwin Nunez, sem lagði boltann fyrir Mac Allister og þaðan í netið. André Onana, markvörður United, hefði líklega átt að gera betur á nærstönginni.

Stuttu síðar tókst Salah að snúa við taflinu með öðru marki Liverpool eftir að hann hirti frákast í teignum.

Leikurinn var hin ótrúlegasta skemmtun og var von á fleiri mörkum.

Nunez komst nálægt því að bæta við þriðja markinu þegar tæpur hálftími var eftir. Hann fíflaði Raphael Varane áður en hann tók skotið en Onana sá við honum.

Aðeins um þrjár mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma er United tókst að jafna leikinn. Antony fékk boltann í miðjum teignum, náði að snúa sér áður en hann setti boltann í netið.

Á lokasekúndum leiksins gat Marcus Rashford tryggt United ótrúlegan sigur er Christian Eriksen lyfti boltanum inn fyrir vörn Liverpool en Rashford setti boltann á einhvern ótrúilegan hátt framhjá markinu og því framlenging framundan.

United spilaði vel í framlengingunni en það var Liverpool sem náði að taka forystuna á ný er skot Harvey Elliott fór af varnarmanni United og í netið.

Heimamenn gáfust ekki upp. Marcus Rashford sá til þess að jafna leikinn eftir mistök í vörn Liverpool. McTominay fann Rashford sem skoraði af miklu öryggi.

Það var síðan undir lok framlengingar sem vængmaðurinn Amad Diallo skoraði eftir hraða skyndisókn heimamanna. Elliott tapaði boltanum og var það Alejandro Garnacho sem keyrði fram með Diallo sér við hlið. Hann lagði boltann til Diallo á hárréttum tíma sem setti boltann út við stöng.

Diallo var á gulu spjaldi og tók þá furðulegu ákvörðun að fara úr treyjunni í fögnuðinum og uppskar því sitt annað gula spjald og þar með rautt, en honum er líklega alveg sama. Risastórt augnablik fyrir hann og United komið áfram í undanúrslit enska bikarsins. Magnaður leikur í alla staði.
Athugasemdir
banner
banner