Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 17. mars 2024 19:25
Brynjar Ingi Erluson
Ten Hag: Fyrstu 35 mínúturnar þær bestu sem ég hef séð á þessu tímabili
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Hollenski stjórinn Erik ten Hag var virkilega ánægður með frammistöðuna hjá leikmönnum sínum í 4-3 sigrinum á Liverpool á Old Trafford í dag, en sigurinn kom United í undanúrslit enska bikarsins.

Síðustu ár hefur Liverpool haft ágætis tak á United en það virðist eitthvað vera að breytast núna.

United var betri aðilinn í leiknum í dag og verðskuldaði fyllilega að fara áfram, en Ten Hag var sérstaklega ánægður með fyrsta hálftímann eða svo.

„Þetta er einn af heimsins stærstu fótboltaleikjum. Þeir eru sögulegir. Mér fannst fyrstu 35 mínúturnar þær bestu sem ég hef séð frá liðinu á þessu tímabili, en við misstum dampinn eftir það. Það er vel hægt að sjá að Liverpool er mjög gott lið en við höfðum trú á leikstílnum og nýttum tækifærin.“

„Rashford átti sín augnablik. Mér fannst mjög góður. Hann klúðraði einu færi þarna en hann er alltaf mættur sem er mjög gott. Þetta gaf hinum í liðinu mikla hvatningu í að halda áfram og hafa trú á þessu.“

„Liðið sýndi þrautseigju og ákveðni til að vinna þennan leik. Það hafa komið svo mörg bakslög en við andlega erum við mjög sterkir og við náðum að gefa stuðningsmönnunum mikla orku. Þeir studdu okkur áfram og við unnum leikinn,“
sagði Ten Hag.

United mætir Coventry í undanúrslitunum á Wembley í næsta mánuði, en hann segir að það megi alls ekki vanmeta enska B-deildarliðið.

„Það skiptir ekki máli hvaða liði við mætum. Þú verður að spila þinn besta leik. Í gær sáum við að Coventry er mjög svo sterkt lið, þeir spila frábæran fótbolta og við verðum að spila upp á okkar besta ef við viljum komast í úrslit.“

United er í harðri baráttu um Meistaradeildarsæti. Tottenham og Aston Villa töpuðu stigum um helgina og gefur það United færi á að saxa á forystu þeirra.

„Við erum enn að berjast. Stærstan hluta tímabilsins höfum við verið langt frá því að vera á þessu stigi, en við erum að setja pressu á Tottenham og Aston Villa. Hver einasti leikur er úrslitaleikur og við töpuðum einum úrslitaleik gegn Fulham. Markmið okkar er að komast í Meistaradeild og vinna bikar,“ sagði Ten Hag.
Athugasemdir
banner
banner