Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 22. október 2019 15:00
Magnús Már Einarsson
Líklegt að Jón Daði spili meira á kantinum með landsliðinu
Jón Daði í leiknum gegn Andorra í síðustu viku.
Jón Daði í leiknum gegn Andorra í síðustu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Daði Böðvarsson, framherji íslenska landsliðsins, kom inn á vinstri kantinn þegar Jóhann Berg Guðmundsson meiddist snemma leiks gegn Frökkum á dögunum. Jón Daði á 46 landsleiki að baki þar sem hann hefur iðulega verið í fremstu víglínu.

Kolbeinn Sigþórsson er kominn aftur á fulla ferð með landsliðinu og Alfreð Finnbogason er einnig klár aftur eftir meiðsli. Samkeppnin um stöður í fremstu víglínu er mikil og Jón Daði gæti spilað meira á kantinum með landsliðinu á næstunni.

„Með því að eiga alla þessa góðu framherja þá getum við nýtt Jón Daða sem kantmann þegar við erum að verjast. Þegar við sækjum kemur hann kannski sem annar framherji, hvort sem það er hægra eða vinstra megin. Það getur nýst liðinu vel og gefið okkur annan vinkil í því sem við erum að gera," sagði Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu um helgina.

Jón Daði þekkir það að spila á kantinum en hann byrjaði meistaraflokksferil sinn á Selfossi í þeirri stöðu.

„Við þurfum aldrei að hafa áhyggjur af vinnusemi hjá Jóni Daða. Styrkleiki hans er að nýta svæðið í hröðum sóknum og að tengja við samherja sína sem eru frammi. Hann getur alveg gert það þó að hann spili á vængnum þó að hann sé ekki alveg jafn nálægt og alltaf í tveggja sentera kerfi. Þetta gefur fullt af taktískum vinklum og varnarlega þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur af honum," sagði Freyr.
Freysi svaraði spurningum um stöðu mála hjá landsliðinu
Athugasemdir
banner