Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 24. júlí 2022 19:03
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: KA kláraði tíu leikmenn Keflavíkur í uppbótartíma
Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði þriðja mark gestanna
Nökkvi Þeyr Þórisson skoraði þriðja mark gestanna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sindri Kristinn Ólafsson var rekinn af velli snemma í fyrri hálfleik
Sindri Kristinn Ólafsson var rekinn af velli snemma í fyrri hálfleik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jakob Snær Árnason gerði annað mark KA
Jakob Snær Árnason gerði annað mark KA
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Keflavík 1 - 3 KA
1-0 Adam Árni Róbertsson ('8 )
1-1 Rodrigo Gomes Mateo ('75 )
1-2 Jakob Snær Árnason ('93 )
1-3 Nökkvi Þeyr Þórisson ('94 )
Rautt spjald: Sindri Kristinn Ólafsson, Keflavík ('11) Lestu um leikinn

KA skoraði tvö mörk í uppbótartíma er liðið vann Keflavík 3-1 í Bestu deild karla á HS orkuvellinum í dag. Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður Keflvíkinga, var rekinn af velli á 11. mínútu og var róðurinn erfiður eftir það.

Heimamenn áttu draumabyrjun er Adam Árni Róbertsson tæklaði boltann yfir línuna á 8. mínútu. Sindri Þór Guðmundsson fékk boltann við vítateiginn og náði að pikka boltanum framhjá Kristijan Jajalo, markverði KA, sem kom út á móti. Boltinn var að leka yfir línuna en Adam Árni vildi gulltryggja markið með því að fleygja sér í boltann og tækla hann yfir línuna.

Þremur mínútum síðar var Sindri Kristinn rekinn af velli er hann hljóp út á móti Ásgeiri Sigurgeirssyni sem var sloppinn í gegn. Sindri tók hann niður og uppskar rautt spjald fyrir og Keflvíkingar því aðeins tíu á vellinum. Rúnar Gissurarson kom inná fyrir Erni Bjarnason í taktískri skiptingu.

Gestirnir kölluðu eftir vítaspyrnu á 38. mínútu er þeir töldu Nacho Heras hafa handleikið knöttinn á marklínu áður en Rúnar handsamaði boltann, en dómarinn sá ekkert athugavert við það og áfram hélt leikurinn.

KA-menn stjórnuðu spilinu mest allan leikinn á meðan Keflavík náði að beita hættulegum skyndisóknum. Heimamenn voru nálægt því að komast í 2-0 á 66. mínútu er Rúnar Þór Sigurgeirsson átti fastan bolta fyrir markið en Jajalo varði frábærlega frá Patrik Johannesen.

Níu mínútum síðar kom jöfnunarmarkið. Gestirnir náðu að koma boltanum aftur fyrir vörn Keflvíkinga þar sem Rodrigo Gomes Mateo var mættur til að jafna leikinn.

Ásgeir klúðraði hættulegu skallafæri stuttu síðar. Algjört dauðafæri í að koma KA yfir á meðan Jajalo varði vel í tvígang hinum megin á vellinum.

KA menn voru í leit að sigri og hafðist það með tveimur mörkum seint í uppbótartíma.

Keflvíkingar fengu hornspyrnu í uppbótartíma og settu alla menn fram. KA vann boltann eftir hornið, leikmenn keyrðu fram og var það Jakob Snær Árnason sem gerði annað mark KA og mínútu síðar gulltryggði liðið sigurinn er Nökkvi Þeyr Þórisson skallaði fyrirgjöf tvíburabróður síns, Þorra Mar, í netið.

Lokatölur 3-1 fyrir KA sem er í 3. sæti með 27 stig en Keflavík í 6. sæti með 17 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner