Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 26. júní 2018 12:15
Ívan Guðjón Baldursson
Queiroz: Ekki rautt því hann heitir Ronaldo
Mynd: Getty Images
Carlos Queiroz, landsliðsþjálfari Íran, starfaði með Cristiano Ronaldo í sjö ár. Í fimm ár störfuðu þeir saman hjá Manchester United, áður en Queiroz tók við portúgalska landsliðinu eftir Evrópumótið 2008.

Íran mætti Portúgal í úrslitaleik um sæti í 16-liða úrslitum Heimsmeistaramótsins í gær og er Queiroz alls ekki sáttur með dómgæsluna í leiknum.

Evrópumeistararnir komust yfir og gátu tvöfaldað forystuna þegar paragvæski dómarinn notaði myndbandstækni til að dæma vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Ronaldo. Stórstjarnan klúðraði vítaspyrnunni og var dæmdur brotlegur skömmu síðar fyrir að gefa olnbogaskot. Dómarinn notaði myndbandstæknina til að skoða brotið og gaf gult spjald.

„Sem þjálfari liðsins vil ég vita hvað er í gangi þegar myndbandstæknin er notuð, en þeir leyfa okkur ekki að sjá neitt. Dómarinn stöðvar leikinn og sér að þetta er olnbogaskot, en gefur ekki rautt spjald!" sagði Queiroz.

„Það segir í reglunum að olnbogaskot er rautt spjald. Það skiptir ekki máli þó þú heitir Messi eða Ronaldo, þetta er alltaf rautt.

„Myndbandstækni er góð hugmynd sem þarf að framkvæma mikið betur."


Dómgæslan var þó ekki einhliða, þar sem Íran fékk dæmda afar umdeilda vítaspyrnu í uppbótartíma eftir að dómarinn notaði myndbandstæknina enn eina ferðina. Íranar komust svo nálægt því að stela sigrinum og senda Portúgali heim er Mehdi Taremi klúðraði dauðafæri undir lokin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner