Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 27. mars 2021 11:00
Magnús Már Einarsson
Aron: Hefðum allir getað verið betri með boltann
Icelandair
Arnar Þór Viðarson og Aron Einar Gunnarsson ræða saman í leiknum við Þýskaland.
Arnar Þór Viðarson og Aron Einar Gunnarsson ræða saman í leiknum við Þýskaland.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var mikil varnarvinna og færsla. Við hefðum allir getað verið betri með boltann þegar við fengum hann og það er eitthvað sem við komum til með að bæta," sagði Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, á fréttamannafundi í dag um 3-0 tapið gegn Þýskalandi í fyrradag.

„Við vissum að þetta yrði erfiður leikur á móti góðu liði. Þýskaland hefur sýnt það og sannað. Þeir hafa unnið 17 leiki í röð í undankeppni HM og við vissum að þetta yrði erfiður leikur," sagði Aron sem er klár í slaginn fyrir leikinn gegn Armenum á morgun. „Mér líður vel eftir leikinn. Endurheimtin hefur verið fín og ég er klár."

Aron var spurður út í breytingarnar sem Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen hafa komið með eftir að þeir tóku við landsliðinu.

„Breytingarnar eru ekki miklar. Það eru smá öðruvísi hreyfingar í færslum og ekki mikið sem við þurfum að breyta. Við höfum haft stuttan tíma til að fara yfir þetta. Mér fannst við venjast því hratt í leiknum gegn Þjóðverjunum. Við unnum okkur inn í leikinn. Þessar hreyfingar koma síðan sjálfkrafa hjá okkur," sagði Aron sem var einnig spurður út í sitt hlutverk. „Ég er vanur því að vera sitjandi miðjumaður sem þarf að stjórna í kringum mig. Þetta er ekki eitthvað sem ég er óvanur að gera."
Athugasemdir
banner