Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   mán 26. nóvember 2018 12:16
Elvar Geir Magnússon
Borgarstjóri talar um River Plate mafíuna
Allt var á suðupunkti kringum leikinn.
Allt var á suðupunkti kringum leikinn.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Borgarstjóri Buenos Aires lýsir boltabullum River Plate, sem réðust á liðsrútu Boca Juniors, sem 'mafíu' fótboltans í Argentínu.

River og Boca áttu að mætast í úrslitaleik Copa Liberadores, Meistaradeildar Suður-Ameríku, á laugardagskvöld. Eftir árásina á rútuna var leikurinn færður aftur um sólarhring og síðan var honum aftur frestað.

Á morgun verður fundað um framhaldið en ekki er komin tímasetning á leikinn.

Einhverjir leikmenn Boca slösuðust þegar rúður á rútunni voru brotnar þegar hún var á leið á völlinn.

Horacio Rodriguez Larreta, borgarstjóri Buenos Aires, segir að um hefndarárás hafi verið að ræða. Lögreglan hefði daginn áður gert húsleit á heimili leiðtoga harðkjarna stuðningsmannahóps River Plate, hóps sem kallast Barra Brava.

Hópurinn er mjög valdamikill og var með fjölda miða á úrslitaleikinn.

„Barra Brava er vandamálið, mafía sem hefur verið í fótboltanum í yfir 50 ár. Þessi atburðarás tengist því sem gerðist daginn á undan. 300 manns var meinaður aðgangur að leiknum og það kveikti reiði," segir Horacio Rodriguez Larreta.

Barra Brava er sagt fjármagna sig með undirheimastarfsemi, meðal annars með miðasölu á svörtum markaði.

„Hjá húligönum í Argentínu snýst þetta ekki bara um ástríðu, þetta er viðskipti. Miðar skipta um hendur fyrir háar fjárhæðir," segir Tim Vickery, sérfræðingur um fótboltann í Suður-Ameríku.

Forráðamenn Boca Juniors fóru fram á það að leiknum yrði frestað en öll þessi atburðarás er mikið reiðarslag fyrir fótboltann í Suður-Ameríku. Talað var um stærsta félagsliðaleik ársins og margir sem biðu spenntir fyrir framan skjáinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner