Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 01. desember 2018 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: Guardian 
Forseti knattspyrnusambandsins sakaður um að nauðga landsliðskonum
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
FIFA er að rannsaka alvarlegar ásakanir gegn afganska knattspyrnusambandinu sem koma fram í frétt frá Guardian.

Karlkyns starfsmenn knattspyrnusambandsins eru sakaðir um að beita landsliðskonur andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Þessar ásakanir hafa orðið til þess að Hummel, aðalstyrktaraðili landsliðsins, hætti samstarfi við knattspyrnusambandið og kallaði eftir stjórnarskiptum.

Khalida Popal talaði við fréttamann Guardian um ástandið í afganska kvennaboltanum og er það vægast sagt hræðilegt, en hún þurfti að flýja land árið 2016 og hefur búið í Danmörku síðan.

Popal var fyrirliði afganska landsliðsins áður en hún tók við stjórn kvennadeildar afganska knattspyrnusambandsins. Hún hefur barist gegn kynjamisrétti í afganskri knattspyrnu undanfarin ár og er hún búin að fá tvo afganska leikmenn og landsliðsþjálfarann í lið með sér í baráttunni.

„Það er mjög erfitt fyrir fólk sem býr í landinu að tala gegn þessum mönnum. Þetta eru valdamiklir menn. Ef leikmaður hækkar róminn þá getur hann verið myrtur," sagði Popal, sem hefur staðið fyrir æfingabúðum fyrir afganska leikmenn undanfarin ár.

„Afganska knattspyrnusambandið senti tvo karlmenn til að fylgja afgönsku leikmönnunum í æfingabúðirnar. Þeir voru að áreita stelpurnar og ég sagði þeim að hætta því.

„Þeir héldu áfram, fóru inn í herbergi til stelpnanna og sváfu hjá þeim. Þeir mútuðu stelpunum, lofuðu þeim samningum hjá félagsliðum og 100 pundum í mánaðarlaun. Þá þyrftu þær að segja já við öllu. Þær voru þvingaðar."


Popal hringdi í forseta knattspyrnusambandsins sem lofaði umbótum. Það fór svo að mennirnir tveir voru færðir í starfi, en þeir fengu í raun stöðuhækkun ef marka má orð Kelly Lindsey landsliðsþjálfara Egyptalands.

Popal hélt áfram að tala um ástandið í afganska kvennaboltanum og lýsti þöggunaraðferðum knattspyrnusambandsins.

„Níu af bestu landsliðskonunum voru reknar því þær ætluðu að fara í fjölmiðla. Þær voru reknar úr knattspyrnusambandinu og sagðar vera lesbíur svo sögum þeirra yrði ekki tekið alvarlega. Samkynhneigð er ekki umræðuefni í Afganistan, ef þú ert talinn vera samkynhneigður ert þú og fjölskylda þín í bráðri hættu."

Popal segist hafa rætt við marga leikmenn og rannsakað málið ítarlega. Hún hafi komist að því að forseti sambandsins væri sjálfur að beita leikmenn ofbeldi.

„Ég komst að því að forsetinn sjálfur væri að beita landsliðskonur kynferðislegu, andlegu og líkamlegu ofbeldi. Inni á skrifstofu hans er svefnherbergi með rúmi. Það er fingrafaraskanni til að opna hurðina og þannig gat hann læst leikmenn í herberginu.

„Ég leitaði að stelpum sem höfðu lent í þessu og fann nokkrar þeirra. Sumar sögðu nei en var þá nauðgað. Svo voru þær reknar úr liðinu til að draga úr trúverðugleika þeirra. Það liti bara út eins og þær væru sárar með að vera reknar úr liðinu. Þessi rannsókn tók mig hálft ár og í henni fann ég líkamlegt og kynferðislegt ofbeldi, morðhótanir og nauðgunarmál."

Athugasemdir
banner