Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 01. nóvember 2020 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Caulker: Var aldrei uppá mitt besta vegna fíknar
Mynd: Getty Images
Steven Caulker var á toppi tilverunnar þegar hann lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir England og spilaði reglulega fyrir Tottenham Hotspur aðeins 20 ára gamall.

Hann toppaði þó tvítugur og spilaði í gegnum áfengis- og spilafíkn í mörg ár. Í dag er hann þó breyttur maður og gengur gífurlega vel með Alanyaspor í tyrkneska boltanum.

„Ég get eiginlega ekki lýst sársaukanum sem ég glímdi við innra með mér vegna fíknarinnar. Þetta var hræðilegt ástand og þetta er eitthvað sem ég þarf að berjast við á hverjum degi," sagði hinn 28 ára gamli Caulker við BBC.

„Ég hef verið í bataferli lengi núna og ég þakka fyrir að hafa tekist að halda mér edrú með hjálp 12 spora kerfisins. Ég kom til Tyrklands og hér hefur mér tekist að slaka á og finna sjálfan mig aftur."

Caulker skoraði í eina landsleiknum sínum fyrir England. Það var frægt 4-2 tap gegn Svíum þar sem Zlatan Ibrahimovic skoraði með sturlaðri bakfallsspyrnu. Hann segir að það sem pirri sig mest sé að hafa aldrei náð hæstu hæðum á ferlinum vegna fíknanna.

„Þegar ég lít til baka er mest pirrandi að ég hafi aldrei náð þeim hæðum sem ég gat náð. Ég var á vellinum en gat aldrei gefið meira en kannski 50-60% af því sem bjó í mér. Núna er ég byrjaður að lifa lífinu sem ég vil og mér líður eins og ég sé orðinn talsvert afkastameiri á fótboltavellinum."

Caulker er lykilmaður í liði Alanyaspor sem trónir á toppi tyrknesku deildarinnar eftir sex umferðir. Liðið endaði í fimmta sæti í fyrra og vann sér þátttökurétt í undankeppni fyrir Evrópudeildina, en tapaði þar 1-0 gegn Rosenborg í september.

Miðvörðurinn kafaði dýpra í fíknir sínar og vandamál í viðtalinu við BBC og sagði meðal annars að hann var vanur að fara út að drekka og veðja á hverju kvöldi, jafnvel þó æfing eða leikur væru á dagskrá daginn eftir.
Athugasemdir
banner