Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   þri 05. mars 2024 15:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Fram ekki að reyna að selja Tiago - „Hann er í mínum plönum"
Tiago Fernandes.
Tiago Fernandes.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram.
Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fram endaði í tíunda sæti á síðasta tímabili.
Fram endaði í tíunda sæti á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tiago Fernandes er leikmaður sem er í plönum Rúnars Kristinssonar, þjálfara Fram. Hann segir það í samtali við Fótbolta.net en að undanförnu hefur verið talað um að Fram sé að leitast eftir því að selja Tiago.

Tiago var ónotaður varamaður í leik Fram gegn ÍBV í Lengjubikarnum síðasta laugardag og eftir það kom fram í hlaðvarpinu Dr Football að Fram væri opið fyrir því að selja Tiago. Rúnar segir hann hluta af plönum sínum.

„Tiago er búinn að vera veikur. Hann hefur æft lítið og svo veiktist hann aftur. Hann er ekki kominn í nægilega gott stand og við erum að passa vel upp á hann. Tiago er á fullu að æfa og er að reyna að koma sér í form. Hann mun spila í næstu leikjum," sagði Rúnar við Fótbolta.net en Tiago er 28 ára gamall Portúgali sem lék fyrst með Fram frá 2018 til 2019. Og svo aftur núna frá 2022. Hann var stórkostlegur sumarið 2022 en ekki eins góður á síðasta tímabili.

„Fótboltamenn eru alltaf til sölu og þannig er það í öllum fótboltaliðum í heiminum ef einhver býður nægilega mikið. Við erum ekki að reyna að selja Tiago og hann er í mínum plönum. Það er með hann eins og alla aðra leikmenn, við erum að reyna að passa upp á hann."

„Hann var búinn að vera veikur í Portúgal áður en hann kom hingað. Hann var á góðri leið áður en hann veiktist aftur í síðustu viku. Hann var á bekknum í síðasta leik og var ekki nægilega hraustur til að koma inn á. Við áttum það samtal á bekknum. Það er ekkert skrítið við það."

Erum alltaf að leita
Fram hefur fengið Kyle McLagan frá Víkingi, Kennie Chopart frá KR og Þorra Stefán Þorbjörnsson á láni frá Lyngby frá því að síðasta tímabili lauk. Rúnar vonast til að bæta við fleiri leikmönnum á næstu vikum.

„Það er enginn að fara en við erum alltaf að leita," segir Rúnar um mögulegan liðsstyrk.

„Okkur þjálfurunum finnst við vanta tvo eða þrjá leikmenn. Á sama tíma eru margir búnir að fá tækifæri til að sýna sig. Ég er með nýtt lið í höndunum og er að kynnast leikmönnum. Ég hef verið að leita að því í vetur hvaða kerfi hentar liðinu best og svo erum við að reyna að fylla í þær stöður sem vantar. Við vitum ekkert hvað gerist í því. Við erum alltaf að leita eins og flestallir þjálfarar."

Líður mjög vel í Fram
Rúnar er á leið inn í sitt fyrsta tímabil með Fram en honum líður vel í Úlfarsárdalnum. Veturinn hefur verið notaður í að prófa ýmsa hluti.

„Mér líður mjög vel í Fram. Gengið hefur verið upp og niður en við erum alveg meðvitaðir um það af hverju. Við vitum að hverju við erum að stefna að og hvað við erum að gera," segir Rúnar. „Við erum búnir að prófa hin ýmsu kerfi og búnir að breyta taktíkinni nokkrum sinnum til að sjá hvað hentar okkur best með þann mannskap sem við höfum í höndunum. Það styttist í að við finnum út úr því hvað er best."

„Þegar maður er í nýju félagi með nýja leikmenn þá þarf maður tíma til að kynnast öllu vel og finna út úr því hvað er best að gera þegar inn í mótið er komið. Það styttist núna í þetta blessaða mót."

Hann er spenntur fyrir tímabilinu sem er framundan.

„Þetta verður mjög spennandi. Það tekur tíma fyrir okkur að finna rétta kerfið og koma öllum í gott stand. Undirbúningstímabilið er oft þannig að þú ert aldrei með alla heila. Áherslan hefur á að koma liðinu í gott hlaupaform og það er mikið styrktarprógramm. Í leikjunum viltu svo sjá ákveðna hluti. Svo förum við yfir það," segir Rúnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner