Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   mið 06. mars 2024 16:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Telur að Valur sé eina liðið sem geti keppt við Víking um titilinn
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Baldur Sigurðsson spáir því að það verði tveggja hesta kapphlaup um Íslandsmeistaratitilinn í sumar. Baldur var sérstakur gestasérfræðingur í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag.

Valsmönnum er spáð öðru sæti í ótímabæru spánni sem opinberuð var í þættinum. Mánuður er í að Íslandsmótið fari af stað.

„Mér finnst þeir vera eina liðið sem getur farið í einhverja baráttu við Víking. Ég fór á æfingu hjá þeim og fékk að fylgjast með og þá sá maður hversu stór og góður þessi hópur er. Það voru mikil gæði á æfingunni, ég sá það með berum augum hversu góðir þeir eru í fótbolta," segir Baldur sem fylgdist með Valsliðinu í sjónvarpsþáttum sínum fyrir Stöð 2 Sport.

„Ég sé ekki að Valsmenn ættu að vera eitthvað slakari en í fyrra og ef þeir verða jafngóðir eða betri er leiðin bara upp á við. Það yrði fáránlegt ef Víkingur myndi ná öðru tímabili eins og í fyrra og það gengur allt upp. Það má alls ekki gerast fyrir okkur sem erum að fjalla um boltann."

Hvaða leikmann þurfa Valsmenn að fá til að styrkja sig fyrir mót?

„Miðjumann. Það er það sem maður óttast mest fyrir þá, það er þetta skarð sem Hlynur (Freyr Karlsson) skilur eftir sig. Maður var ofboðslega hrifinn af honum og hann gaf þeim alveg gríðarlega mikið," segir Baldur.

Valur Gunnarsson sérfræðingur Fótbolta.net er alls ekki eins sannfærður um Val og er ekki hrifinn af því sem hann hefur séð til liðsins á undirbúningstímabilinu.

„Eru Valsmenn búnir að vera það góðir á undirbúningstímabilinu að við hugsum að þetta sé langnæstbesta liðið? Það sem ég hef séð til Vals, mér finnst vera einhver þreyta þarna," segir Valur um Val.
Útvarpsþátturinn - Síðasta ótímabæra spáin fyrir Bestu deildina
Athugasemdir
banner
banner
banner