Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fim 07. mars 2024 15:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Færeyingurinn með heimþrá - „Nokkur áhugaverð nöfn á listanum"
Lengjudeildin
Martin Klein Joensen.
Martin Klein Joensen.
Mynd: Njarðvík
Njarðvík leitar sér nú að framherja.
Njarðvík leitar sér nú að framherja.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson, þjálfari Njarðvíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Njarðvík tilkynnti það í gær að færeyski sóknarmaðurinn Martin Klein Joensen væri farinn frá félaginu eftir stutta dvöl. Hann samdi við Njarðvík í lok október á síðasta ári og gerði þá tveggja ára samning, en er núna farinn aftur heim til Færeyja.

Hann hafði gert tvö mörk í þremur leikjum í Lengjubikarnum en er samkvæmt bolt.fo að semja aftur við Víking Götu, uppeldisfélag sitt.

„Hann óskaði eftir því að fá að fara heim. Hann fékk smá heimþrá. Við erum öll öðruvísi og mismunandi hvernig við tökumst á við hlutina," sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson við Fótbolta.net um færeyska sóknarmanninn í dag.

Njarðvík hefur núna hafið þá vinnu að finna leikmann í stað færeyska sóknarmannsins.

„Að sjálfsögðu er þetta ekki besti tímapunkturinn. Við getum alveg viðurkennt það, en það er bara áfram gakk. Lífið heldur áfram. Þessi vinna sem er að þjálfa hjá fótboltafélagi sem vill ná lengra er stanslaust í gangi. Þetta er eitthvað sem við þurfum að takast á við og við erum þegar byrjaðir á því. Við ætlum að fá inn einn framherja í viðbót í staðinn fyrir hann."

„Við getum ekki verið að bíða of lengi með þetta. Við þurfum að vinna þetta vel og erum þegar með nokkur áhugaverð nöfn á listanum," segir Gunnar Heiðar.

Tvö skref fram á við
Gunnar Heiðar tók við Njarðvík á miðju síðasta tímabili og er núna í fyrsta sinn með liðið á undirbúningstímabili. Hann segir að það hafi gengið vel í vetur.

„Ég er búinn að vera mjög ánægður og ég er glaður með það hvar við erum núna þegar tveir mánuðir eru í fyrsta leik. Þó svo að við séum að spila á nákvæmlega sama skeri og liðin í Bestu deildinni þá byrjum við mánuði seinna og hættum mánuði fyrr sem er svolítið spes finnst mér. En það er bara eins og það er," segir Gunnar Heiðar.

„Við höfum æft mjög vel og fara yfir vissa hluti sem við viljum laga frá því í fyrra. Sú vinna hefur gengið mjög vel. Mikið af undirbúningstímabilinu hefur farið í það að laga þá hluti og mér finnst við hafa gert það. Við höfum sýnt það í síðustu leikjum að við erum komnir tveimur skrefum lengra en í fyrra. Svo tekur við núna næsti fasi í þjálfuninni hjá okkur og þá förum við meira í leikskipulag, hlutverkin hjá hverjum og einum og þannig. Við förum í æfingaferð til Spánar 23. mars og þá munum við gefa okkur tíma í að slípa okkur enn frekar saman. Í byrjun apríl ættum við að vera komnir á fínan stað."

Líður mjög vel hjá Njarðvík
Gunnari segist líða vel í Njarðvík og möguleikarnir séu miklir hjá félaginu.

„Mér líður mjög vel hjá Njarðvík og fólkið í kringum félagið, og leikmennirnir, eru hrikalega flott. Mér finnst miklir möguleikar í þessu félagi en það tekur tíma að búa til alvöru lið. Sú vegferð er í gangi hjá okkur. Við verðum að vera raunsæir að þetta gerist ekki allt á einni nóttu. Við þurfum að vinna í okkar gildum og gera þetta enn betur. Mér finnst þetta líta vel út til framtíðar," segir þjálfarinn en það má búast við spennandi Lengjudeild í sumar.

„Núna eru komin tvö fornfræg lið í deildina, Keflavík og ÍBV. Það verður gaman að eiga við þau og hin liðin í deildinni. Ég held að þetta verði mjög skemmtilegt sumar í Lengjudeildinni," sagði Gunnar Heiðar að lokum.
Athugasemdir
banner