Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 08. mars 2024 07:00
Ívan Guðjón Baldursson
Moyes ósáttur: Áttum að fá vítaspyrnu í framlengingu
Mynd: EPA
West Ham tapaði 1-0 gegn Freiburg er liðin mættust í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í gærkvöldi.

David Moyes, þjálfari West Ham, svaraði spurningum að leikslokum og var spurður út í umdeilt atvik sem átti sér stað í uppbótartíma, þegar Hamrarnir vildu fá dæmda vítaspyrnu fyrir hendi en fengu ekki.

Boltinn fór augljóslega í höndina á varnarmanninum innan vítateigs og var handleggurinn ekki í náttúrulegri stöðu, en dómarinn dæmdi ekki vítaspyrnu. Atvikið var skoðað í VAR-herberginu og var dómarinn sendur í skjáinn, en hann stóð við upprunalegu ákvörðun sína um að dæma ekki vítaspyrnu.

„Að mínu mati þá er þetta vítaspyrna. Í Evrópukeppnum er nánast alltaf gefin vítaspyrna fyrir hendi innan vítateigs. Ég tel það ekki vera rétta nálgun, en þannig er það í UEFA keppnum. Ég skil ekki hvers vegna við fengum ekki þessa vítaspyrnu, mér finnst það ósanngjarnt," sagði Moyes.

„Hann var með tvo handleggi fyrir ofan höfuðið á sér og fékk boltann í höndina. Þetta er alltaf vítaspyrna vegna þess að hendurnar eru ekki í náttúrulegri stellingu. Það er einhver að segja að það var mögulega ýtt í bakið á varnarmanninum, en þá hefði dómarinn átt að dæma aukaspyrnu fyrir sóknarbrot - sem hann gerði ekki."

Hamrarnir fengu góð færi til að skora í leiknum en tókst ekki að nýta þau og stóðu heimamenn í Freiburg uppi sem sigurvegarar. Þetta er aðeins annar sigur Freiburg á nýju ári en lærisveinar David Moyes hafa trú á því að þeir geti snúið dæminu við í seinni leiknum í London.
Athugasemdir
banner
banner
banner