Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 10. febrúar 2019 18:58
Ívan Guðjón Baldursson
Sarri: Get ekki útskýrt hvað gerðist
Mynd: Getty Images
Maurizio Sarri mætti auðmjúkur á fréttamannafund eftir 6-0 tap Chelsea gegn Manchester City í dag.

Fréttamenn fundu blóðbragð og spurðu stjórann spjörunum úr en hann var rólegur og virtist einlægur í svörum sínum.

„Ég veit ekkert um framtíðina mína, þið verðið að spyrja stjórnendur félagsins um það. Ég hef ekki áhyggjur af starfinu, það er tilgangslaust. Það sem ég hef áhyggjur af er frammistaða liðsins, hún var langt frá því að vera ásættanleg," sagði Sarri eftir tapið.

„Við æfðum mjög vel alla vikuna en leikskipulagið okkar fór í vaskinn þegar þeir skoruðu eftir þrjár mínútur. Við náðum ekki að bregðast við og allt sem þeir reyndu að gera heppnaðist fullkomlega.

„Ég get ekki útskýrt hvað gerðist, ég skil það ekki. Ég þarf að horfa aftur á leikinn einn og svo með starfsmönnum. Við gerðum mikið af mistökum gegn röngum andstæðingum, þetta er lið sem getur refsað fyrir hver einustu mistök og það var raunin í dag."


Sarri telur muninn á liðunum þó ekki vera jafn mikinn og markatalan gefur í skyn og segir sína menn eiga í vandræðum með að standa sig vel á útivelli.

„Stóri munurinn á liðunum í dag var pressan. Þeir pressuðu virkilega vel en okkar pressa misheppnaðist. Við þurfum að bæta gengi okkar á útivelli, mér finnst það mjög skrýtið. Okkur gekk betur úti heldur en heima á upphafi tímabils en síðasta mánuð hefur þetta snúist við. Ég skil ekki hvers vegna."
Athugasemdir
banner
banner