Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   sun 10. mars 2024 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Heimild: Vísir 
Hareide líður illa að mæta Ísrael: Ættum ekki að spila
Icelandair
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: EPA
Åge Hareide, norskur landsliðsþjálfari Íslands, hefur tjáð sig um komandi viðureign Íslands gegn Ísrael í umspili um laust sæti á EM í Þýskalandi í sumar.

Almenningsálitið í Noregi er á þann veg að Ísland ætti ekki að spila leikinn gegn Ísrael vegna þeirra óhugnalegu heraðgerða sem ríkisstjórn Ísrael stendur fyrir í Palestínu.

Hareide segir að Ísland neyðist til að spila þennan leik samkvæmt reglugerð UEFA, annars eigi landsliðið í hættu á að fá þunga refsingu frá evrópska knattspyrnusambandinu.

„UEFA getur bannað okkur frá keppnum og refsað enn frekar ef við spilum ekki þennan leik," sagði Hareide í samtali við Vísi.

„En ef þið spyrjið mig persónulega, þá myndi ég hika við að spila gegn Ísrael eins og staðan er í dag útaf þeim hryllingi sem er að eiga sér stað á Gaza. Það sem hefur verið gert við konur, börn og aðra saklausa borgara er hryllilegt.

„Að mínu mati þá ættum við ekki að spila þennan leik, en við neyðumst til að gera það útaf alvarlegum afleiðingum fyrir íslenska landsliðið ef við neitum að mæta til leiks."


Leikurinn fer fram á hlutlausum velli í Ungverjalandi og segir Hareide mikilvægt að líta ekki á ísraelsku landsliðsmennina sem hermenn.

„Við þurfum að breyta hugarfarinu okkar. Landsliðsmenn Ísrael eru ekki hermenn. Það er mjög erfitt að hætta að hugsa um allar ógeðfelldu fréttirnar sem maður heyrir og byrja að hugsa um Ísrael bara sem fótboltalið. Leikmenn eiga engan þátt í stríðinu þó að þeir séu að spila fótbolta fyrir þjóð sína. Þetta er eflaust mjög erfitt ástand fyrir þá líka."

Leikurinn gegn Ísrael fer fram 21. mars í Búdapest, höfuðborg Ungverjalands. Fimm dögum síðar mætir sigurliðið annað hvort Bosníu og Hersegóvínu eða Úkraínu í úrslitaleik um sæti á EM 2024.
Athugasemdir
banner
banner
banner