Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 10. mars 2024 17:18
Ívan Guðjón Baldursson
Jón Dagur lagði upp gegn Club Brugge - Orri Steinn byrjaði og frumraun Nóels
Mynd: Getty Images
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Haugesund
Jón Dagur Þorsteinsson var í byrjunarliði OH Leuven í efstu deild í Belgíu í dag og lagði hann upp fyrsta mark leiksins á 31. mínútu, á útivelli gegn sterku liði Club Brugge.

Heimamenn voru sterkari aðilinn og tókst þeim að snúa leiknum sér í hag. Lokatölur urðu 3-1 og er Leuven áfram í fallbaráttu, þremur stigum frá öruggu sæti í deildinni.

Í efstu deild danska boltans var Orri Steinn Óskarsson í byrjunarliði FC Kaupmannahafnar í þægilegum 4-0 sigri gegn Lyngby, með Rúnar Alex Rúnarsson á bekknum. Andri Lucas Guðjohnsen var í byrjunarliði Lyngby en Kolbeinn Birgir Finnsson var í leikbanni. Sævar Atli Magnússon kom inn af bekknum á 59. mínútu en tókst ekki að bæta stöðuna fyrir gestina.

FCK er á toppi deildarinnar með 42 stig eftir 21 umferð en getur misst toppsætið til Bröndby og Midtjylland sem eiga leik til góða. Þetta var fjórði tapleikurinn í röð hjá fallbaráttuliði Lyngby.

Nóel Atli Arnórsson var þá í byrjunarliði Álaborgar og lék allan leikinn í 4-3 sigri gegn Vendsyssel í næstefstu deild danska boltans.

Hinn 17 ára gamli Nóel lék allan leikinn, sinn fyrsta deildarleik í meistaraflokki og endurheimti AaB toppsæti deildarinnar með þessum sigri. Þar er liðið með 48 stig eftir 21 umferð, tveimur stigum fyrir ofan Íslendingalið SönderjyskE sem er í öðru sæti.

Esbjerg lagði AB Kaupmannahöfn að velli í þriðju efstu deild en Ísak Óli Ólafsson leikur með liðinu. Esbjerg er langefsta liðið í deildinni og stefnir beint aftur upp.

Í sænska bikarnum tapaði Íslendingalið Norrköping í Malmö, þar sem Arnór Ingvi Traustason var í byrjunarliðinu og kom Ísak Andri Sigurgeirsson inn af bekknum. Liðin mættust í 8-liða úrslitum og vann Malmö öruggan 5-2 sigur til að tryggja sér sæti í undanúrslitaleik gegn Halmstad.

Norsku félögin Haugesund og Ham-Kam gerðu að lokum jafntefli í Íslendingaslag, þar sem Viðar Ari Jónsson var í byrjunarliði Ham-Kam með Brynjar Inga Bjarnason á bekknum. Þá var Anton Logi Lúðvíksson í byrjunarliði Haugesund og byrjaði Hlynur Freyr Karlsson á bekknum. Óskar Hrafn Þorvaldsson er þjálfari Haugesund.

Patrik Sigurður Gunnarsson var á bekknum í 3-0 sigri Viking gegn Stabæk í æfingaleik.

Club Brugge 3 - 1 OH Leuven

FC Kaupmannahöfn 4 - 0 Lyngby

AaB 4 - 3 Vendsyssel

Esbjerg 2 - 1 AB Kaupmannahöfn

Malmö 5 - 2 Norrköping

Viking 3 - 0 Stabæk

Haugesund 1 - 1 Ham-Kam

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner