Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 10. mars 2024 22:12
Ívan Guðjón Baldursson
Postecoglou: Vorum framúrskarandi á öllum sviðum
Mynd: EPA
Ange Postecoglou var mjög ánægður eftir frábæran sigur Tottenham Hotspur á Villa Park í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Liðin eru í harðri baráttu um meistaradeildarsæti og gæti þessi sigur reynst afar mikilvægur. Villa var fimm stigum fyrir ofan Tottenham fyrir þessa viðureign en núna eru aðeins tvö stig sem skilja liðin að.

Lærisveinar Postecoglou gerðu sér lítið fyrir og skoruðu fjögur mörk framhjá Emiliano Martinez, auk þess að halda sínu eigin marki hreinu.

„Við gerðum Aston Villa mjög erfitt fyrir og það sáust þreytumerki á þeim undir lok fyrri hálfleiks. Við héldum áfram að spila okkar leik og mörkin fylgdu. Það er ennþá nóg eftir af tímabilinu, það er mikilvægt fyrir okkur að halda yfirvegun og spila okkar fótbolta," sagði Postecoglou.

„Næsta skref hjá okkur er að halda áfram að spila jafn vel og við spiluðum í dag. Af hverju ættu stuðningsmenn ekki að vera spenntir fyrir framtíðinni eftir þessa frammistöðu í svona mikilvægum leik? Við vorum framúrskarandi á öllum sviðum."

Varnarmaðurinn öflugi Micky van de Ven þurfti að fara meiddur af velli í upphafi síðari hálfleiks, en meiðslin eru ekki talin vera alvarleg.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner