Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
   fös 15. mars 2024 19:46
Ívan Guðjón Baldursson
Ísak og Þórir í sigurliðum - Svekkjandi tap hjá Sveindísi
Mynd: Fortuna Dusseldorf
Mynd: Eintracht Braunschweig
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Það fóru nokkrir leikir fram í þýska boltanum í dag, þar sem Ísak Bergmann Jóhannesson og Þórir Jóhann Helgason voru í byrjunarliðum í næstefstu deild.

Ísak Bergmann var í byrjunarliði Fortuna Düsseldorf sem rúllaði yfir VfL Osnabrück og vann fjögurra marka sigur á útivelli.

Ísak spilaði fyrstu 83 mínútur leiksins og er Dusseldorf í þriðja sæti eftir þennan sigur, þremur stigum frá öðru sætinu sem veitir beinan þátttökurétt í efstu deild á næstu leiktíð.

Þórir Jóhann spilaði þá í 90 mínútur er Eintracht Braunschweig vann naumlega á útivelli gegn Paderborn til að næla sér í afar dýrmæt stig í fallbaráttunni.

Braunschweig er í harðri fallbaráttu með 27 stig eftir 26 umferðir, einu stigi frá öruggu sæti í deildinni.

Í kvennaboltanum lék Sveindís Jane Jónsdóttir allan leikinn úti á kanti hjá Wolfsburg en tókst ekki að skora eða leggja upp í svekkjandi tapleik.

Wolfsburg var sterkari aðilinn á útivelli gegn Hoffenheim, en heimakonur leiddu 1-0 í hálfleik og tvöfölduðu forystuna þvert gegn gangi leiksins í síðari hálfleik.

Jule Brand minnkaði muninn fyrir Wolfsburg á lokamínútum leiksins en það dugði ekki til og urðu lokatölur 2-1 fyrir Hoffenheim þrátt fyrir mikla yfirburði gestanna.

Þessi niðurstaða er skellur fyrir Wolfsburg sem situr áfram í öðru sæti þýsku deildarinnar, tveimur stigum eftir toppliði FC Bayern. Hoffenheim er í þriðja sæti, átta stigum á eftir Wolfsburg.

Þá fóru nokkrir æfingaleikir fram í Skandinavíu fyrr í dag, þar sem Davíð Snær Jóhannesson fékk tvö gul spjöld í jafntefli hjá Álasundi gegn Hödd.

Kolbeinn Þórðarson var þá í byrjunarliði Gautaborgar í sigri gegn Hammarby á meðan Kristiansund gerði jafntefli við Levanger og Mjällby tapaði gegn Brommapojkarna.

Paderborn 1 - 2 Braunschweig

Osnabruck 0 - 4 Dusseldorf

Hoffenheim 2 - 1 Wolfsburg

Aalesund 1 - 1 Hodd

Hammarby 1 - 3 Gautaborg

Mjallby 1 - 2 Brommapojkarna

Kristiansund 1 - 1 Levanger

Athugasemdir
banner
banner