Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   lau 16. mars 2024 18:25
Ívan Guðjón Baldursson
O'Neil: Þetta var ógeðsleg hegðun - Neto mögulega frá út tímabilið
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Gary O'Neil, þjálfari Wolves, var svekktur eftir óvænt tap á heimavelli í 8-liða úrslitum enska FA bikarsins í kvöld.

Úlfarnir fengu Coventry í heimsókn úr Championship deildinni en réðu ekki við gestina og töpuðu að lokum 2-3 eftir ótrúlega dramatík í uppbótartíma.

Coventry var talsvert sterkari aðilinn í dag og hefðu gestirnir hæglega getað skorað fleiri mörk. Þeir voru 2-1 undir þegar uppbótartíminn fór af stað en Ellis Simms skoraði og lagði upp til að tryggja sögulegan sigur fyrir lokaflautið.

Að leikslokum var O'Neil spurður út í atvik sem átti sér stað skömmu fyrir lokaflautið, þegar Coventry skoraði sigurmarkið og þjálfari liðsins fagnaði í andlitið á boltastrák heimamanna.

Mark Robins, þjálfari Coventry, baðst afsökunar að leikslokum en O'Neil telur svona hegðun vera óafsakanlega.

„Það var ógeðslegt af honum að fagna í andlitið á boltastráknum. Ég er búinn að ræða við strákinn og hann er í uppnámi. Þetta er bara strákur að sinna vinnunni sinni. Ég passa mig að sýna ekki tilfinningar í þessu starfi, það getur endað illa," svaraði O'Neil, sem var svo spurður út í meiðsli Pedro Neto.

„Það er ekki ljóst en Neto gæti verið meiddur út tímabilið. Þetta virðast vera svipuð meiðsli og hann lenti í fyrir áramót, hann verður vonandi klár í slaginn fyrir lokaleiki tímabilsins en við getum ekki vitað það."

Pedro Neto er því líklega ekki á leið á EM með portúgalska landsliðshópnum, en þessi 24 ára gamli kantmaður á eitt mark í fimm A-landsleikjum. Hann var fjarri keppni í tvo mánuði fyrir áramót vegna samskonar meiðsla á hinum fótleggnum.
Athugasemdir
banner
banner
banner