Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 18. desember 2022 12:30
Ívan Guðjón Baldursson
Regragui: Þetta verður að vera fordæmi fyrir framtíðina
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images

Walid Regragui, landsliðsþjálfari Marokkó, var stoltur af sínum mönnum eftir 2-1 tap gegn Króatíu í bronsleik heimsmeistaramótsins í Katar.


Hann þurfti að stilla til friðar og fjarlægja nokkra leikmenn sína af vellinum að leikslokum þar sem þeir gengu nokkuð hart að katörskum dómara leiksins. Leikmenn Marokkó voru reiðir yfir dómgæslunni en þá sérstaklega atviki í síðari hálfleik þegar Achraf Hakimi vildi fá vítaspyrnu.

Marokkó endaði í fjórða sæti HM og fara Regragui og lærisveinar hans í sögubækurnar fyrir að vera fyrsta Afríkuþjóðin til að komast í undanúrslit á heimsmeistaramóti.

„Fólk efaðist um okkur fyrir mót og við komum öllum á óvart með þessum árangri en þetta er ekki nóg. Þetta verður að vera fordæmi fyrir framtíðina," sagði Regragui eftir tapið.

„Við gerðum börnum í Marokkó og víðar kleift að dreyma um að vinna HM einn daginn. Það þýðir miklu meira fyrir mig heldur en að vinna einhvern leik á HM. Við sýndum að aðrar þjóðir geta barist við þær bestu og núna þurfum við að gera þetta aftur. Ef okkur tekst að komast reglulega í undanúrslit eða 8-liða úrslit þá munum við vinna HM einn daginn."

Marokkó var með mikinn stuðning í Katar sem yfirgnæfði alltaf stuðning andstæðinganna. Hann nægði þó ekki gegn Frökkum sem höfðu betur í undanúrslitum og unnu 2-0 eða gegn Króötum sem unnu bronsleikinn.

Regragui vakti athygli þegar hann valdi 18 ára miðjumann í byrjunarliðið gegn Króatíu. Bilal El Khannouss, byrjunarliðsmaður Genk í Belgíu, hafði ekki leikið einn einasta landsleik fyrir Marokkó þegar hann byrjaði gegn Króötum. Táningurinn átti góðan leik en gerðist sekur um mistök þegar hann tapaði boltanum neðarlega á eigin vallarhelmingi í öðru marki Króatíu - sem reyndist sigurmarkið.


Athugasemdir
banner
banner