Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 19. mars 2021 17:32
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Urðu fyrir blóðtöku en stefna á að verða betri í öllum þáttum
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA.
Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍA hefur misst öfluga leikmenn frá síðasta tímabili, þar á meðal Tryggva Hrafn Haraldsson sem fór í Val.
ÍA hefur misst öfluga leikmenn frá síðasta tímabili, þar á meðal Tryggva Hrafn Haraldsson sem fór í Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alex Davey er væntanlegur til landsins í næstu viku.
Alex Davey er væntanlegur til landsins í næstu viku.
Mynd: Getty Images
Gísli Laxdal Unnarsson.
Gísli Laxdal Unnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elias Tamburini.
Elias Tamburini.
Mynd: ÍA
Arnar Már er byrjaður að spila aftur. Hér fagnar hann með liðinu eftir sigur á Val á síðustu leiktíð.
Arnar Már er byrjaður að spila aftur. Hér fagnar hann með liðinu eftir sigur á Val á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Veturinn hefur gengið vel, við höfum æft vel og unnið í því sem við ætlum að reyna að bæta okkur í fyrir sumarið," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA, í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Við höfum verið nokkuð óheppnir með meiðsli og nokkrir leikmenn verið óheppnir með því að missa mikið úr. Það eru einu vonbrigðin en að sama skapi hafa margir ungir leikmenn fengið mínútur í vetur og það mun nýtast okkur til framtíðar," segir Jói Kalli en hann býst við að það verði allir klárir fyrir fyrsta leik í Pepsi Max-deildinni nema eitthvað komi upp.

„Það eru allir klárir, nema eitthvað annað komi upp. Það lítur út fyrir að það séu allir að verða svo gott sem 'fully fit' núna, að það geti allir verið að æfa á fullu, frá og með næstu viku. Það skiptir okkur miklu máli. Svo eigum við að fá Englendinginn í næstu viku. Hann er ekki enn kominn út af Covid og svo bara út af Brexit, hann þarf að fá landvistarleyfi og atvinnuleyfi. Það er pínu svekkelsi í því að hafa ekki fengið hann fyrr en við getum ekki breytt því núna."

Hafa verið að vinna í varnarleiknum
Jói Kalli segir að hópurinn hafi verið að vinna vel í varnarleiknum frá síðustu leiktíð. ÍA fékk á sig 43 mörk í fyrra, flest mörkin í deildinni ásamt Gróttu.

„Við höfum verið að vinna mikið í varnarleiknum og reynt að stilla okkur af hvernig við ætlum að verjast. Það hefur verið erfitt að vinna í því þegar það vantar margar. Áherslurnar eru þannig að við verðum að gera betur í varnarleiknum en í fyrra. Sóknarleikurinn var á köflum mjög góður og við þurfum að halda áfram að vinna í því. Við viljum skora mörk og spila skemmtilegan fótbolta en við þurfum að ná meira jafnvægi í varnarleikinn hjá okkur," segir þjálfari Skagamanna.

Misst stóra gríðarlega pósta
ÍA hefur misst þrjá lykilmenn frá síðustu leiktíð. Bjarki Steinn Bjarkason fór til Ítalíu, Stefán Teitur Þórðarson til Danmerkur og Tryggvi Hrafn Haraldsson til Vals. Jóhannes Karl er brattur þrátt fyrir blóðtöku.

„Það er alltaf erfitt að missa mikilvæga leikmenn," segir Jói en hann segir að nú sé tækifæri fyrir unga stráka í liðinu, Skagamenn vilji gefa þeim tækifæri í efstu deild.

„Við höldum áfram að vinna í okkar grunnþáttum. Við viljum hafa góða og hæfileikaríka leikmenn í liðinu okkar en umfram allt snýst hugmyndafræði okkar um liðsheildina og styrk liðsins. Það mun verða til þess að við náum árangri og það er alltaf það sem við erum að reyna að byggja á og vinna í."

„Við höndlum það alveg," segir Jói Kalli um það að missa þessa þrjá sterku leikmenn. „Það eru öflugir strákar að stíga upp eins og Gísli Laxdal (Unnarsson) og Brynjar Snær (Pálsson). Við söknuðum Viktors Jónssonar á seinni hluta síðasta tímabils, hann var mikið meiddur í fyrra. Við fáum hann öflugan til baka. Steinar Þorsteinsson að sama skapi. Hann gat ekki spilað mikið á seinni hluta síðasta tímabils og við þurfum að koma honum í gang. Við ætlum að fylla í þessi skörð, við getum ekki látið það stoppa okkur í okkar framþróun."

Yngri flokka starf á Akranesi er víðfrægt fyrir að skila frábærum fótboltamönnum. Eru að koma upp margir ungir efnilegir strákar núna sem munu fá tækifæri í sumar?

„Það eru strákar að koma upp en við höfum líka verið að selja stráka út á undanförnum árum sem væru orðnir lykilmenn núna. Við viljum gefa þessum leikmönnum tækifæri til að fara snemma út ef þeir eru tilbúnir í það. Annars bíður þeirra meistaraflokksfótbolti hjá okkur snemma," segir Jói Kalli og bætir við:

„Það eru strákar hérna sem eru búnir að vera í æfingahópum í yngri landsliðum - U18, U17 og jafnvel U16 - sem munu fá tækifæri til að spila í efstu deild í sumar."

Leikmennirnir sem hafa komið inn
Skagamenn hafa bætt við sig enska miðverðinum Alex Davey sem er væntanlegur til landsins og kemur hann inn fyrir Marcus Johannsson. Þá kom Elias Tamburini, finnskur bakvörður frá Grindavík, og Hákon Ingi Jónsson, framherji frá Fylki. Þá kom Hrafn Hallgrímsson, ungur strákur frá Stjörnunni til ÍA.

„Alex Davey er hugsaður sem hafsent inn í vörnina. Hann er stór og sterkur náungi líkamlega, en hann er líka góður fótboltamaður og hann á eftir að styrkja okkur mikið."

„Hákon er öflugur leikmaður. Hann mun henta okkur vel í okkar uppspili og hann er góður í að spila með bakið í markið, hann er góður að skýla boltanum þannig að við getum fært liðið okkar framar og fjölgað mönnum framar á vellinum. Það eru hans styrkleikar. Við viljum líka að hann skili sér í teiginn og skori fyrir okkur mörk því hann getur alveg gert það."

„Við erum búnir að vera ánægðir með Tamburini. Hann er búinn að vera mjög flottur og frábær karakter. Það er mikil fagmennska sem fylgir honum og vinnusemi. Hann er mikill æfingamaður sem er góð fyrirmynd fyrir þessa ungu stráka sem eru í kringum hann. Það skiptir okkur miklu máli að fá inn svona leikmann í hópinn. Ég er ánægður með strákana sem hafa verið að koma inn. Hrafn Hallgrímsson, ungur strákur sem kom frá Stjörnunni, á framtíðina fyrir sér en hann er enn ungur. Hann er að sýna okkur mikla bætingu og framtíðin hjá honum er björt."

Enginn á förum en einhver mögulega að koma
Það er enginn leikmaður á förum frá Akranesi að sögn fyrrum landsliðsmiðjumannsins en það gæti verið að það bætist í hópinn fyrir mót.

„Það er enginn að fara. Við erum í þokkalega góðum málum. Það gæti verið að einn leikmaður læðist inn til viðbótar eða svo á næstu dögum eða vikum. Maður veit aldrei fyrr en það er klárt. Við sjáum til hvað setur með það. Við erum að reyna að bæta inn aðeins reynslu í hópinn líka í bland við ungu strákana," sagði Jói Kalli og átti þar ekki við markvörðinn Dino Hodzic sem er að koma frá Kára.

Miðjumaðurinn Arnar Már Guðjónsson er byrjaður að spila aftur með ÍA eftir að hafa misst af öllu síðasta tímabili vegna erfiðra meiðsla. Arnar lék síðast 13 leiki fyrir ÍA í Pepsi-Max deildinni árið 2019 og skoraði í þeim eitt mark. Það er mjög jákvætt fyrir félagið að hann sé að koma aftur og nánast eins og að fá nýjan leikmann.

„Það eru frábærar fréttir. Arnar er gríðarlegur leiðtogi í þessum hóp og hefur sýnt það hversu öflugur hann er fyrir okkar lið. Það er gaman að fylgjast með honum þegar hann er kominn aftur af stað. Hann skiptir okkur gríðarlega miklu máli en við verðum að taka eitt skref í einu. Hann er byrjaður að spila og í síðasta leik spilaði hann hálfleik. Vonandi verður hann kominn í toppstand þegar deildin byrjar."

Markmiðið skýrt
ÍA hafnaði hafnaði í áttunda sæti á síðasta tímabili og markmiðið upp á Skaga er að gera betur á þessu tímabili.

„Við erum alltaf að þróa okkur og vinna í okkar stefnu. Við viljum gefa ungum leikmönnum tækifæri og á sama tíma spila góðan fótbolta, en við viljum líka reyna að taka skref fram á við þannig að við séum alltaf að bæta okkur ár frá ári þegar við erum að skoða hvar við endum í töflunni," segir Jói Kalli.

„Markmiðin eru skýr fyrir þetta tímabil; við ætlum að vera betri í öllum þáttum sem snúa að liðinu. Við ætlum að vera öflugir fram á við og spila fjölbreyttan sóknarleik, við ætlum að verjast betur og við ætlum að enda ofar í töflunni en á síðasta tímabili."
Athugasemdir
banner
banner